Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-32

A (Ómar R. Valdimarsson lögmaður)
gegn
B (Gunnar Ingi Jóhannsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skuldamál
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.

2. Með beiðni 13. mars 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 16. febrúar sama ár í máli nr. 800/2022: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins varðar kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu 2.620.000 króna úr hendi gagnaðila sem hann heldur fram að séu eftirstöðvar af láni að fjárhæð 2.800.000 krónur sem hann lagði inn á bankareikning hennar í október 2019. Aðilar málsins voru í sambúð frá 2017 til 2020. Um ári eftir að slitnaði upp úr sambúðinni krafði leyfisbeiðandi gagnaðila bréflega um fjárhæðina.

4. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar sagði að leyfisbeiðandi hefði sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu að hann hefði lánað gagnaðila fjármuni. Talið var að hann hefði ekki axlað hana. Þá sagði í dómi Landsréttar að eins og atvikum máls væri háttað væru engin efni til að gera gagnaðila að færa sönnur á að greiðslan hefði ekki verið peningalán.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur bæði að efni og formi. Hann sé rangur að efni til meðal annars vegna afstöðu réttarins til framlagðra gagna í málinu og þess sem segir í niðurstöðukafla héraðsdóms um að leyfisbeiðandi hafi ekki borið fyrir sig brostnar forsendur í stefnu málsins. Þá sé dómurinn rangur að formi til þar sem hann uppfylli ekki formskilyrði 3. og 4. mgr. 164. gr, sbr. 114. gr. laga nr. 91/1991.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.