Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-114
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattur
- Skattalög
- Tekjuskattur
- Laun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 23. júní 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 28. maí sama ár í máli nr. 288/2024: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi höfðaði málið á hendur gagnaðila og krafðist þess að felldur yrði úr gildi úrskurður ríkisskattstjóra 24. janúar 2019 um endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2011 til 2015, sem og úrskurðir yfirskattanefndar frá 11. desember 2019, 1. apríl 2020 og 1. febrúar 2023, að því marki sem hafnað var kröfum um ógildingu úrskurðar ríkisskattstjóra.
4. Með héraðsdómi var felld úr gildi endurákvörðun opinberra gjalda leyfisbeiðanda samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra vegna gjaldársins 2011 en gagnaðili sýknaður af öðrum kröfum. Í dómi Landsréttar var vísað til þess að í 57. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt væri mælt fyrir um að semdu skattaðilar um skipti sín í fjármálum á þann hátt sem væri verulega frábrugðinn því sem almennt gerðist í slíkum viðskiptum skyldu verðmæti, sem án slíkra samninga hefðu runnið til annars skattaðilans en gerðu það ekki vegna samningsins, teljast honum til tekna. Ákvæðið veitti skattyfirvöldum heimildir til að líta fram hjá formi gerninga og ákveða raunverulegt efni þeirra í skattalegu tilliti en sönnunarbyrði fyrir því að skilyrði væru til að beita reglunni hvíldi á skattyfirvöldum, þar á meðal hvort einhver hagsmunatengsl væru milli þeirra aðila sem ættu í lögskiptunum. Taldi Landsréttur að rík og náin hagsmunatengsl hefðu verið milli tiltekinna erlendra félaga og leyfisbeiðanda og hann notið þeirra tekna sem þau greiddu vegna starfa hans í þeirra þágu. Féllu þær greiðslur því undir tekjuhugtak 1. mgr. 1. töluliðar A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003. Þá var leyfisbeiðandi ekki talinn hafa sýnt fram á að greiðslur frá erlendu félögunum hefðu að hluta verið endurgreiðslur vegna útlagðs kostnaðar. Talið var að gagnaðili hefði sýnt fram á að skilyrði 57. gr. laga nr. 90/2003 hefðu verið uppfyllt til að endurákvarða tekjur leyfisbeiðanda vegna gjaldáranna 2012 til 2015. Hinn áfrýjaði dómur var því staðfestur.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé í grundvallaratriðum rangur en rétturinn reisi niðurstöðu sína á efnisatriðum og lagagrundvelli sem sé eðlisólíkur niðurstöðu skattyfirvalda. Hann telur að endurskoðunarvaldi dómstóla séu settar þær skorður að þeir endurskoði einungis þann lagagrundvöll sem lá til grundvallar viðkomandi ákvörðun. Stjórnvöld geti því ekki byggt mál á öðrum lagagrundvelli fyrir dómstólum en í hinni umdeildu ákvörðun. Jafnframt sé þetta sérstaklega strangt þegar um sé að ræða íþyngjandi ákvörðun eins og álagningu sektar. Vísar leyfisbeiðandi til dóma Hæstaréttar 16. maí 2012 í máli nr. 593/2011, 9. október 2014 í máli nr. 111/2014 og 6. desember 2017 í máli nr. 857/2017. Þá telur leyfisbeiðandi að fyrirliggjandi dómar í sakamáli á hendur honum hafi þýðingu og séu bindandi um lagalega niðurstöðu um fyrirliggjandi efnisatriði. Að lokum vísar leyfisbeiðandi til þess að málið hafi fordæmisgildi um beitingu 57. gr. laga nr. 90/2003 og niðurstaða í því varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.