Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-120

L Events ehf., Lifandi Viðburðir ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
K2 Agency Limited (Jón Gunnar Ásbjörnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Einkahlutafélag
  • Samsömun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 9. nóvember 2023 leita L Events ehf., Lifandi Viðburðir ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. október 2023 í máli nr. 191/2021: L Events ehf., Lifandi Viðburðir ehf. og Guðmundur Hreiðarsson Viborg gegn K2 Agency Limited. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðendum um greiðslu skuldar vegna tónlistarflutnings hljómsveitarinnar Slayer á tónlistarhátíðinni Secret Solstice árið 2018 sem haldin var á vegum félagsins Solstice Productions ehf. Gagnaðili er umboðsfyrirtæki hljómsveitarinnar.

4. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðendum gert að greiða gagnaðila óskipt 133.273,45 bandaríkjadali ásamt dráttarvöxtum og með dómi Landsréttar var leyfisbeiðendum gert að greiða sömu fjárhæð að frádreginni innborgun 29. september 2022 samtals 120.573,90 bandaríkjadalir. Gagnaðili hafði áður höfðað mál til heimtu kröfunnar á hendur Solstice Productions ehf. og fyrirsvarsmanni félagsins, Friðriki Ólafssyni. Bú þess félags var síðar tekið til gjaldþrotaskipta. Lauk skiptum án þess að krafan fengist greidd úr búinu, en Friðriki var með dómi jafnframt gert að greiða kröfuna. Í dómi Landsréttar var rakið að leyfisbeiðendur hefðu borið fyrir sig að gagnaðili hefði ekki sýnt fram á að hann hefði orðið fyrir tjóni við framsal eigna Solstice Productions ehf. til Lifandi Viðburða ehf. og var í því sambandi vísað til gagna sem lögð voru fram fyrir Landsrétt. Taldi Landsréttur að ákvæði 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 stæði því ekki í vegi að litið yrði til þessara gagna við meðferð málsins, þótt réttilega hefði átt að leggja þau fram á fyrri stigum. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að stjórnendur félaganna sem komu að ráðstöfun eigna félaganna hefðu með saknæmum og ólögmætum hætti valdið gagnaðila fjártjóni sem leyfisbeiðendurnir L Events ehf. og Lifandi viðburðir ehf. bæru skaðabótaábyrgð á. Þá var komist að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandinn Guðmundur bæri einnig ábyrgð á tjóni gagnaðila á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því úrslit málsins hafi verulega almenna þýðingu um samsömun og beitingu skaðabótareglna á sviði félagaréttar. Jafnframt hafi málið verulega almenna þýðingu á sviði skuldaskilaréttar, meðal annars um þær aðstæður þegar hagsmunum þrotabús er ekki haldið uppi samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til þar sem brotið hafi verið gegn 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991. Loks byggja leyfisbeiðendur á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.

6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.