Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-41
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Sjómaður
- Sóttvarnalög
- Gáleysi
- Miskabætur
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 11. mars 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 13. febrúar sama ár í máli nr. 759/2023: Sveinn Geir Arnarsson gegn A og gagnsök og A gegn Einari Vali Kristjánssyni og Valdimar Steinþórssyni. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðilum um greiðslu miskabóta samkvæmt a-lið 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 vegna heilsutjóns sem hann rakti til háttsemi gagnaðila í tengslum við veikindi sín þegar hann var skipverji á togara í veiðiferð þar sem upp kom Covid-19 smit og nær allir skipverjar í áhöfninni veiktust. Höfðaði leyfisbeiðandi málið á hendur skipstjóra togarans, framkvæmdastjóra útgerðarinnar og útgerðarstjóra.
4. Héraðsdómur dæmdi gagnaðila Svein Geir, skipstjóra togarans, til að greiða leyfisbeiðanda 400.000 krónur í miskabætur en aðrir gagnaðilar voru sýknaðir. Með dómi Landsréttar voru allir gagnaðilar sýknaðir af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom fram að fljótlega eftir að togarinn hélt til veiða 27. september 2020 hafi komið upp veikindi meðal skipverja. Skipið kom í land 18. október til að skipverjar færu í sýnatöku og læknisskoðun og hélt það aftur til veiða eftir hana. Reyndust 22 af 25 skipverjum, þar á meðal leyfisbeiðandi, þá smitaðir af Covid-19. Skipið kom í kjölfarið til lands 20. sama mánaðar. Í dómi Landsréttar kom fram að í sakamáli sem höfðað var gegn gagnaðila Sveini Geir hefði hann viðurkennt brot gegn 2. mgr. 34. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 en fallið hefði verið frá ákærulið um brot gegn 1. mgr. ákvæðisins. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að ekki væri sannað að leyfisbeiðandi hefði smitast af veirunni um borð í skipinu. Yrði að líta svo á í ljósi þess fjölda skipverja sem tilkynntu sig veika og almennrar vitneskju í samfélaginu um útbreiðslu Covid-19 að skipstjóri hefði haft ástæðu til að bregðast fyrr við. Sú vanræksla var í ljósi aðstæðna þó ekki metin honum til stórfellds gáleysis . Ekki lægi annað fyrir en að það mat skipstjóra að leyfisbeiðandi og aðrir skipverjar hefðu ekki verið alvarlega veikir og ekki hefði verið þörf á að koma þeim undir læknishendur hefði verið rétt. Var ekki fallist á að skipstjóri hefði þegar leyfisbeiðandi ákvað að sinna vinnuskyldu sinni sýnt af sér slíkt skeytingarleysi um heilsufar hans að skilyrði a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga um stórfellt gáleysi gæti talist fullnægt. Þá var ekki fallist á að skipstjóri hefði vanrækt skyldur sínar gagnvart veikum skipverjum með því að halda togaranum til veiða eftir sýnatöku 18. október 2020 í ljósi þess sem fram kom um heilsufar skipverja við læknisskoðun sama dag. Loks var ekki fallist á að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga væri fullnægt vegna framgöngu gagnaðila Sveins Geirs í tengslum við vinnu skipverja við frágang og þrif um borð áður en komið var að landi. Þá var héraðsdómur staðfestur um sýknu gagnaðila Einars Vals og Valdimars.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína enda hann orðið fyrir bæði líkamlegu og andlegu tjóni við fordæmalausar aðstæður. Þá hafi úrslit málsins verulegt almennt gildi við mat á saknæmri háttsemi og mörkum almenns og stórfellds gáleysis í skilningi a-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, en einnig um ábyrgð útgerðarmanna á þeim ákvörðunum sem teknar séu um tilhögun starfa um borð í skipi og viðbrögð við veikindum skipverja. Dómur Landsréttar sé jafnframt bersýnilega rangur um tiltekin atriði sem varði mat á alvarleika veikinda leyfisbeiðanda og fleiri skipverja svo og huglæga afstöðu gagnaðila Sveins Geirs til þeirra. Sakarmat Landsréttar sé rangt og endurskoðun þess jafnframt til þess fallin hafa almennt gildi. Þá horfi Landsréttur fram hjá aðkomu og ábyrgð gagnaðila Einars Vals og Valdimars á þeim ákvörðunum sem leitt hafi til tjóns leyfisbeiðanda.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.