Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-37
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótaábyrgð
- Viðurkenningarkrafa
- Líkamstjón
- Vinnuveitendaábyrgð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 10. mars 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 13. febrúar sama ár í máli nr. 911/2023: TM tryggingar hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu gagnaðila vegna líkamstjóns. Leyfisbeiðandi varð fyrir slysi við vinnu sína þegar hann ók inn um sjálfvirkar dyr sem opnast og lokast eftir hreyfiskynjurum. Þegar leyfisbeiðandi ók að dyrunum mun hafa verið kallað á hann. Hann leit þá við en þegar hann sneri aftur við höfðinu var hurðin byrjuð að lokast og í augnhæð þegar hann rak höfuðið í hana. Því næst dróst hann undir hurðina sem þá stöðvaðist. Vinnuveitandi leyfisbeiðanda hafði á slysdegi ábyrgðartryggingu hjá gagnaðila TM tryggingum hf.
4. Með héraðsdómi var fallist á kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu vegna þess líkamstjóns sem hlaust af slysinu. Var vinnuveitandi talinn þurfa að bera hallann af því að slysið hafði ekki verið tilkynnt vinnueftirliti fyrr en rúmu ári eftir að það átti sér stað. Með dómi Landsréttar var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda. Í dóminum kom fram að atvik að baki slysinu lægju ljós fyrir og vanræksla vátryggingartaka á að beina tilkynningu til vinnueftirlitsins á réttum tíma gæti ekki haft áhrif við sönnun. Taldi Landsréttur óhjákvæmilegt að líta svo á að slys leyfisbeiðanda hefði orðið vegna óhappatilviks og eigin aðgæsluleysis hans. Var gagnaðili því sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um það hvenær málsástæða teljist of seint fram komin. Landsréttur hafi hafnað því að taka til efnislegrar meðferðar þá málsástæðu leyfisbeiðanda að staðsetning skynjara hurðarinnar hafi verið óforsvaranleg. Í stefnu hafi leyfisbeiðandi byggt á því að vinnuveitandi bæri skaðabótaábyrgð á hlutlægum grundvelli eða eftir atvikum sakargrundvelli þar sem slysið hefði mátt rekja til ófullnægjandi eða bilaðs búnaðar með tilliti til öryggis og hefði héraðsdómur leyst úr þessari málsástæðu. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að vinnuveitandinn hafi gert allt sem í hans valdi stóð til þess að koma í veg fyrir að málið yrði upplýst. Til að mynda hefði myndbandsupptaka af slysinu komið í ljós daginn fyrir aðalmeðferð í héraðsdómi og mikilvægar upplýsingar fyrst komið fram í vitnisburði yfirmanns í töskusal við aðalmeðferðina. Með þessu hafi vinnuveitandi brotið gegn skyldu sinni til að leitast við að upplýsa málið. Hefðu þessar upplýsingar legið fyrir kynnu þær að hafa haft áhrif á málatilbúnað leyfisbeiðanda. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks telur hann dóm Landsréttar fela í sér frávik frá ríkjandi dómaframkvæmd og með honum gerðar minni kröfur til vinnuveitenda en dómstólar hafi áður gert. Gagnaðili hafi sýnt af sér saknæma háttsemi með því draga ekki úr hættu á slysstað þrátt fyrir ítrekuð óhöpp.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.