Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-9
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lífeyrir
- Kjarasamningur
- Grunnskóli
- Sveitarfélög
- Jafnræði
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 12. janúar 2024 leitar Helga Sigurðardóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 15. desember 2023 í máli nr. 642/2022: Helga Sigurðardóttir gegn Akureyrarbæ. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gagnaðila hafi verið heimilt að kveða á um það í verklagsreglum um kennara, sem eru sjóðfélagar í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins og óska eftir vinnu samhliða töku lífeyris, að tímabundin ráðning í hlutastarf á bilinu 33 til 49% geti að hámarki staðið í tvö ár en eftir það sé heimilt að ráða lífeyrisþega í stundakennslu ef starfshlutfall er minna en 33%.
4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að sýkna gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu mismunar á þeim launum sem hún hefði fengið fyrir 49% hlutastarf og þeim launum sem henni voru greidd eftir að gerður hafði verið nýr ráðningarsamningur við hana sem stundakennara í 33% starfi. Í dómi Landsréttar kom fram að leyfisbeiðandi hefði starfað í rúm 30 ár sem kennari við skóla sem rekinn er af gagnaðila. Hefði hún ákveðið haustið 2017 í samráði við gagnaðila að lækka starfshlutfall sitt við skólann úr fullu starfi í 49% starf og hefja samhliða því töku lífeyris eins og heimilt var samkvæmt fyrrgreindum verklagsreglum. Eftir að leyfisbeiðandi hafði verið í hlutastarfi samhliða töku lífeyris í tvö ár gerðu aðilar nýjan ráðningarsamning þar sem hún var ráðin stundakennari í tímavinnu við skólann. Landsréttur tók fram í niðurstöðu sinni að ekki hefði hvílt bein lagaskylda á gagnaðila að verða við beiðni leyfisbeiðanda um ráðningu í hlutastarf samhliða töku lífeyris. Gagnaðili hefði hins vegar ákveðið að koma til móts við kennara með fyrrgreindum verklagsreglum, sem gerðu ráð fyrir því að metið yrði hverju sinni út frá hagsmunum hlutaðeigandi skóla hvort unnt væri að verða við beiðni kennara um tímabundið hlutastarf. Væri ákvörðun um að fallast á slíka beiðni ívilnandi í garð kennara. Landsréttur vísaði jafnframt til þess að leyfisbeiðandi hefði ekki getað vænst að ráðning hennar í hlutastarf myndi vara lengur en tvö ár. Enn fremur yrði ekki framhjá því litið að það var undir leyfisbeiðanda komið að segja upp fastráðningu og gera samning um tímabundna ráðningu. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á að hún hefði sætt mismunun, hvort sem væri í samanburði við aðra sem heyrðu undir verklagsreglur gagnaðila eða með tilliti til annars hóps sem gerði það ekki. Þá þóttu verklagsreglur gagnaðila styðjast við málefnaleg sjónarmið.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, einkum með tilliti til jafnræðisreglna og hvort málefnaleg rök hafi staðið til að setja sérstakar reglur um þann þröngt skilgreinda hóp sem þær lúta að en ekki um aðra starfsmenn. Enn fremur hafi ekki áður reynt á túlkun laga nr. 86/2016 um jafnrétti á vinnumarkaði fyrir Hæstarétti og hafi málið því almennt fordæmisgildi. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hann þar um til þess að röksemdir Landsréttar við úrlausn um álitaefni málsins fái ekki samrýmst lögum nr. 86/2016 og ákvæðum tilskipunar ráðsins nr. 2000/78/EB um almennar reglur um jafnrétti á vinnumarkaði og í atvinnulífinu.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.