Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-15
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Líkamsárás
- Hlutdeild
- Sönnun
- Ákæra
- Dómsuppkvaðning
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðnum 10. desember 2024 leita X og Halldór Logi Sigurðsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. október sama ár í máli nr. 44/2024: Ákæruvaldið gegn X, XX, YY, ZZ, ÞÞ, ÆÆ og ÖÖ. Leyfisbeiðendum var birtur dómurinn 13. nóvember 2024. Beiðnirnar bárust Hæstarétti 17. og 20. janúar 2025. Ákæruvaldið leggst gegn beiðnunum.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sakfella leyfisbeiðendur ásamt meðákærðu fyrir smávægilega hlutdeild í broti gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa í félagi farið grímuklæddir inn á skemmtistað og verið inni í húsnæði hans meðan á brotum meðákærðu stóð og þannig veitt þeim liðsinni í verki. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að ákvörðun um refsingu beggja leyfisbeiðenda skyldi frestað og falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms enda héldu þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. Frestun á ákvörðun refsingar var jafnframt bundin skilyrðum 1. og 2. töluliðar 3. mgr. lagagreinarinnar. Kröfum um ómerkingu héraðsdóms var hafnað. Fyrir Landsrétti lýsti ákæruvaldið því yfir að það felldi sig við þá niðurstöðu héraðsdóms að sýkna báða leyfisbeiðendur af þeim hluta ákæru er laut að því að hafa verið ógnun við brotaþola. Landsréttur vísaði til þess að ljóst væri að margt annað en ógnun við brotaþola gæti leitt til rýmkaðrar refsiábyrgðar á grundvelli 1. mgr. 22. gr. almennra hegningarlaga. Stæðu önnur efnisatriði lýsingar á háttsemi leyfisbeiðanda í ákæru eftir sem rök fyrir þeirri ályktun að þeir hefðu veitt aðalmönnum í brotinu liðsinni í verki og verið liðsauki við þá.
4. Leyfisbeiðandinn X byggir á því að áfrýjun málsins lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu og mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um. Ákæra fyrir hlutdeild með ætluðu liðsinni við framkvæmd líkamsárásar hafi grundvallast á ógnun við brotaþola. Með héraðsdómi hafi verið sýknað af þeirri háttsemi og ákæruvaldið unað þeirri niðurstöðu fyrir Landsrétti. Þar sem fyrir liggi og óumdeilt sé að brotaþolum hafi ekki stafað ógn af leyfisbeiðanda sé forsenda fyrir hlutdeild með ætluðu liðsinni fallin brott. Hafi þannig verið farið út fyrir lýsingu í ákæru. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að sönnunarkröfur, heildarsönnunarmat Landsréttar á atvikum, auk túlkunar á ákvæðum laga, þar með talinni 22. gr. almennra hegningarlaga, sé í andstöðu við sönnunargögn og meginregluna um að sönnunarbyrði hvíli á ákæruvaldinu. Úrlausn Hæstaréttar um þessi atriði yrði fordæmisgefandi. Þá hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um hvort hegðun leyfisbeiðanda hafi eingöngu talist til gáleysis og hvaða kröfur eigi að gera til sönnunar á huglægri afstöðu að því leyti. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að skortur á athugasemdum frá verjanda um þörf á endurflutningi í héraði eigi ekki að víkja til hliðar þeim kröfum um réttaröryggi sakborninga sem búi að baki 184. gr. laga nr. 88/2008. Mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um dómvenjur tengdar endurflutningi í svo umfangsmiklu máli. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að málsmeðferð fyrir héraðsdómi hafi verið stórlega ábótavant. Þá sé niðurstaða Landsréttar bersýnilega röng með vísan til sönnunarmats og beitingar refsiákvæðis um hlutdeild með liðsinni við líkamsárás. Loks hafi ákvörðun um sakarkostnað fyrir Landsrétti verið bæði röng og órökrétt.
5. Leyfisbeiðandinn Halldór Logi byggir á því að forsendur héraðsdóms um hann hafi ekki átt sér stoð í framburði hans sem metinn hafði verið stöðugur og ekki ótrúverðugur. Leiði sá annmarki jafnframt til þess að í dómi Landsréttar hafi ekki verið lagt mat á sönnunargildi munnlegs framburðar hans fyrir héraðsdómi eða eftir atvikum hjá lögreglu, heldur látið við það sitja að vísa að verulegu leyti til framburðar meðákærðu. Leyfisbeiðandi vísar jafnframt til þess að héraðsdómur hafi sýknað af þeim hluta verknaðarlýsingar ákæru að hafa verið ógnun við brotaþola og ákæruvaldið unað þeirri niðurstöðu. Hin ætlaða ógn hafi verið forsenda refsiábyrgðar leyfisbeiðanda samkvæmt ákæru og með sakfellingu hafi því verið farið út fyrir ákæru. Þá telur leyfisbeiðandi sönnunarmat Landsréttar ekki samræmast meginreglum um réttláta málsmeðferð. Loks sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur einkum varðandi niðurstöðu um sakarkostnað og áfrýjunarkostnað.
6. Ekki verður að virtum gögnum málsins séð að leyfisbeiðnir lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðnunum er því hafnað.