Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-302

Þórsgarður hf. (Jón Elvar Guðmundsson lögmaður)
gegn
Lögheimum ehf. (Karl Georg Sigurbjörnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Gjaldþrotaskipti
  • Leigusamningur
  • Fasteign
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson.

Með beiðni 30. október 2019 leitar Þórsgarður hf. leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 16. sama mánaðar í máli nr. 642/2019: Þórsgarður hf. gegn Lögheimum ehf., á grundvelli 2. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Lögheimar ehf. leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að bú gagnaðila verði tekið til gjaldþrotaskipta, sbr. 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991. Krafa leyfisbeiðanda er reist á húsaleigusamningi 29. september 2016 við gagnaðila og tekur til vangoldinnar leigu á tímabilinu frá 1. janúar 2017 til 28. febrúar 2019. Gagnaðili mótmælir kröfu leyfisbeiðanda og vísar til þess að um mitt ár 2017 hafi fyrrverandi forsvarsmaður leyfisbeiðanda undirritað nýjan leigusamning um hið leigða húsnæði þar sem Lögmenn Kirkjutorgi ehf. voru tilgreindir sem leigutakar. Samhliða gerð þess samnings hafi sami fyrirsvarsmaður áritað fyrrnefnda leigusamninginn við gagnaðila um að hann væri felldur úr gildi. Með úrskurði Landsréttar var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu leyfisbeiðanda. Var talið að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt nægilega fram á að hann ætti lögvarða kröfu á hendur gagnaðila fyrir umrætt tímabil vegna fyrri leigusamningsins um húsnæðið.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Vísar hann til þess að þar sé ranglega lagt til grundvallar að leyfisbeiðandi hafi ekki vefengt undirritun fyrrverandi fyrirsvarsmanns hans á seinni leigusamninginn og á þann leigusamning sem krafa hans byggir á. Þá hafi krafa leyfisbeiðanda um vangoldna leigu ekki fallið niður jafnvel þó svo að seinni leigusamningurinn og áritun á upphaflega samninginn teljist vera skuldbindandi. Jafnframt telur leyfisbeiðandi að málið hafi fordæmisgildi um það hvernig beri að túlka einfalda áritun á samning um að hann sé felldur úr gildi og hvaða gildi samningur sem gerður er við þriðja mann og er dagsettur aftur í tímann geti haft á lögskipti annarra aðila. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að málið hafi fordæmisgildi um skýringu á því hvaða skilyrði krafa, sem lánadrottinn notar sem grundvöll fyrir áskorun, þurfi að uppfylla samkvæmt 5. tölulið 2. mgr. 65. gr. laga nr. 21/1991.

Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að kæruefnið geti haft fordæmisgildi umfram það, sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum, þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.