Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-136
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skaðabótamál
- Viðurkenningarkrafa
- Líkamstjón
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 17. júlí 2025 leita Reykjavíkurborg og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 19. júní sama ár í máli nr. 468/2024: Reykjavíkurborg og Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn A. Gagnaðili leggst gegn beiðninni
3. Mál þetta varðar kröfu gagnaðila um að viðurkennd verði bótaskylda leyfisbeiðenda vegna líkamstjóns sem gagnaðili hlaut þegar hún datt á leið sinni milli vaðlaugar og heits potts í Árbæjarlaug í janúar 2022. Leyfisbeiðandi Reykjavíkurborg er rekstraraðili Árbæjarlaugar og hafði í gildi ábyrgðartryggingu hjá leyfisbeiðanda Sjóvá-Almennum tryggingum hf. vegna rekstrar sundlaugarinnar.
4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um bótaskyldu leyfisbeiðenda með vísan til forsendna en að viðbættum frekari röksemdum. Kom fram að þegar slysið varð hafi verið verulegt frost auk þess sem snjóbræðslukerfi laugarinnar virkaði ekki sem skyldi. Það hefði kallað á að starfsmenn leyfisbeiðandans Reykjavíkurborgar huguðu sérstaklega vel að því að grípa til ráðstafana til að mæta þeirri auknu hættu af slysum sem af því leiddi. Landsréttur rakti enn fremur að dómaframkvæmd bæri með sér að ríkar kröfur væru gerðar til aðbúnaðar á sundstöðum auk þess sem settar hefðu verið skráðar og nokkuð strangar hátternisreglur til að auka öryggi og stemma stigu við slysum og óhöppum. Taldi rétturinn sannað að hinum ríku skyldum sem kveðið væri á um í reglugerð nr. 814/2010 um hollustuhætti á sund- og baðstöðum hefði ekki verið fullnægt í málinu.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að skilyrði 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt þar sem úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Málið sé jafnframt fordæmisgefandi um hvaða kröfur leiði af ákvæðum reglugerðar nr. 814/2010 og hvernig skuli halda gönguleiðum við útilaugar frostfríum. Þá vísa leyfisbeiðendur til ósamræmis í dómum Landsréttar um kröfur til rekstraraðila sundstaða á grundvelli 2. mgr. 8. gr. fyrrgreindrar reglugerðar. Einnig sé misræmi í dómum Landsréttar um hvernig skuli meta hvort fullnægjandi varúðarmerkingar séu til staðar. Leyfisbeiðendur byggja enn fremur á því að aðferð Landsréttar við sönnunarmat og beitingu sönnunarreglna sé bersýnilega röng. Að endingu vísa leyfisbeiðendur til þess að það hafi verið bersýnilega rangt hjá Landsrétti að hafna með öllu málsástæðum um meðábyrgð gagnaðila enda hafi hvílt á henni rík skylda til að gæta fyllsta öryggis þegar hún datt í verulegu frosti að vetrarlagi.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.