Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-16

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Finni Inga Einarssyni (Karl Georg Sigurbjörnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Nauðgun
  • Sönnun
  • Einkaréttarkrafa
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon

2. Með beiðni 17. desember 2024 leitar Finnur Ingi Einarsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 28. nóvember sama ár í máli nr. 129/2024: Ákæruvaldið gegn Finni Inga Einarssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður af því broti sem honum var gefið að sök. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi hins vegar sakfelldur og brot hans talin varða við 1. og 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Refsing hans var ákveðin fangelsi í tvö ár og sex mánuði.

4. Leyfisbeiðandi vísar til 4. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, þar sem mælt er fyrir um að hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skuli verða við ósk hans um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji augljóst að áfrýjun muni ekki verða til að breyta dómi Landsréttar. Leyfisbeiðandi telur einnig að málið hafi umtalsvert fordæmisgildi um aðferðarfræði Landsréttar við sönnunarmat. Í forsendum héraðsdóms sé að finna ítarlegan rökstuðning fyrir sýknu leyfisbeiðanda. Þar sé þess meðal annars getið að farið hafi verið í vettvangsgöngu og gögn málsins og rannsókn lögreglu geti ekki leitt til sakfellingar vegna þess vafa sem uppi sé í málinu. Landsréttur hafi hins vegar algerlega litið fram hjá þeim atriðum sem gætu leitt til sýknu. Málið varði verulega hagsmuni leyfisbeiðanda og mannréttindi hans.

5. Samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 skal verða við ósk ákærðs manns, sem sýknaður er af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þar sem slíku verður ekki slegið föstu verður beiðnin samþykkt. Einnig er til þess að líta að Landsréttur lagði efnisdóm á skaðabótakröfu brotaþola þótt henni hefði verið vísað frá héraðsdómi.