Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-4
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skuldamál
- Fjármálafyrirtæki
- Skuldajöfnuður
- Tómlæti
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir.
Með beiðni 2. janúar 2020 leitar Ómar Sigtryggsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. desember 2019 í máli nr. 33/2019: Ómar Sigtryggsson gegn Landsbankanum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila á hendur leyfisbeiðanda um greiðslu skuldar vegna yfirdráttar á tékkareikningi. Byggir leyfisbeiðandi á því að gagnaðili eigi ekki kröfu á hendur sér þar sem hún hafi fallið niður fyrir skuldajöfnuð sem hann hafi lýst yfir og gagnaðili samþykkt. Þá sé krafan fyrnd og fallin niður fyrir tómlæti. Héraðsdómur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu með fyrrnefndum dómi.
Leyfisbeiðandi telur að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Vísar hann til þess að þar hafi verið byggt á of seint fram komnum málsástæðum gagnaðila auk þess sem málið hafi verið vanreifað. Jafnframt hafi ranglega verið lagt til grundvallar í dóminum að skilyrði skuldajafnaðar um gagnkvæmni krafna hafi ekki verið fullnægt. Þá telur leyfisbeiðandi að gagnaðili hafi sýnt af sér tómlæti með því að höfða ekki dómsmál á hendur honum fyrr en um sjö og hálfu ári eftir að gagnaðili samþykkti skuldajöfnuð og um átta og hálfu ári eftir að leyfisbeiðandi lýsti honum yfir. Geti málið haft fordæmisgildi um beitingu meginreglu kröfuréttar um tómlæti. Loks telur leyfisbeiðandi að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi né efni til. Er beiðninni því hafnað.