Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-128
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skjalafals
- Sönnunarbyrði
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 15. apríl 2021 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. mars sama ár í málinu nr. 420/2019: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Dómur Landsréttar var birtur leyfisbeiðanda 26. mars 2021. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. 3. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir brot gegn 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa ritað nafn fyrrverandi sambýliskonu sinnar, A, á tilkynningu um eigendaskipti á bifreið og síðan notað tilkynninguna í viðskiptum þegar hann seldi hana en þau höfðu verið sameigendur að bifreiðinni. Í dómi Landsréttar var talið sannað með framburði leyfisbeiðanda að hann hefði ritað nafn A á tilkynninguna og að framburður hans um samþykki hennar ætti sér ekki stoð í gögnum málsins eða framburði vitna. Þá var talið að leyfisbeiðandi hefði ekki fært viðhlítandi rök fyrir því að hann hefði verið í villu um heimild til sölu bifreiðarinnar og þýðingu undirritunar hans á tilkynninguna. Var því talið að tilkynningin hefði verið fölsuð þar sem skjalið var ekki undirritað af A eins og það hefði borið með sér og leyfisbeiðandi hefði því notað það til að blekkja í lögskiptum. Var refsing leyfisbeiðanda ákveðin fangelsi í tvo mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár.
4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Hann byggir á því að málið hafi fordæmisgildi hvað varði sönnunarbyrði ákæruvalds og sönnunarmat dómstóla en að auki um beitingu 155. gr. almennra hegningarlaga. Leyfisbeiðandi telur að það sé annmarki á sönnunarmati dómsins að hafa ekki tekið til skoðunar augljósar rangfærslur eða ósamræmi í framburði vitnis sem og að við sönnunarmatið hafi ekki verið gætt meginreglna sakamálaréttarfars, sbr. meðal annars 108. og 109. gr. laga nr. 88/2008. Einnig telur leyfisbeiðandi að málið varði mikilvæga hagsmuni sína. Jafnframt byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur þar sem gögn málsins beri það með sér að sýkna beri hann.
5. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að leyfisbeiðnin lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu né að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Jafnframt eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Þá verður ekki veitt leyfi til að áfrýja dómi til endurskoðunar á mati Landsréttar á sönnunargildi munnlegs framburðar, sbr. 5. mgr. sömu greinar. Beiðninni er því hafnað.