Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-14

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Fjölni Guðsteinssyni (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Kynferðisbrot
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Björg Thorarensen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 28. janúar 2024 leitar Fjölnir Guðsteinsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 8. desember 2023 í máli nr. 107/2023: Ákæruvaldið gegn Fjölni Guðsteinssyni. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 3. janúar 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir kynferðisbrot með því að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við brotaþola gegn vilja hennar með því að notfæra sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum svefndrunga og ölvunar. Landsréttur dæmdi upphaflega í málinu 5. október 2018 en það var endurupptekið í kjölfar úrskurðar Endurupptökudóms 23. janúar 2023 í máli nr. 19/2022.

4. Leyfisbeiðandi vísar til þess í fyrsta lagi að málið hafi almenna þýðingu um tilvik þar sem lögregla aflar ekki sönnunargagna sem hafi grundvallarþýðingu til að skera úr um sekt eða sýknu sakaðs manns. Þannig hafi lögregla ekki framkvæmt rannsókn á blóðsýni sem tekið var úr brotaþola áður en því var fargað en slíkt hefði veitt nákvæma vísbendingu um ölvunarástand hennar á verknaðarstundu. Í öðru lagi sé mikilvægt að fá úrlausn um hvaða þýðingu það hafi fyrir ákærða að lögregla afli ekki gagna sem hefðu afdráttarlaust getað leitt til sýknu hefði þeirra verið aflað. Í þriðja lagi sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til þar sem horft hafi verið fram hjá ákvæðum stjórnarskrár, alþjóðlegra mannréttindasáttmála og meginreglna sakamálaréttarfars. Ákærði hafi verið sakfelldur þrátt fyrir að engin rannsókn hafi farið fram á ölvunarástandi brotaþola og hún hafi í skýrslu hjá lögreglu stuttu eftir atvikið sagt að hún hafi ekki verið ölvuð. Í íslenskri réttarframkvæmd hafi löngum verið stuðst við vísindalegar rannsóknir um sönnun á ölvun sakaðra manna eða vitna og engin ástæða sé til að víkja frá þeirri grundvallarreglu í þessu máli. Þá hafi brotaþoli verið að senda smáskilaboð fram eftir nóttu líkt og málsgögn sýni og af þeim verði ekki ráðið að brotaþoli hafi verið áberandi ölvuð þegar þau voru skrifuð.

5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.