Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-83

A (Hulda Rós Rúriksdóttir lögmaður)
gegn
B (Guðrún Björg Birgisdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Börn
  • Forsjá
  • Umgengni
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 18. mars 2021 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 19. febrúar sama ár í málinu nr. 547/2020: B gegn A, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili taldi ekki þörf á að gera athugasemdir við beiðnina.

Mál þetta lýtur að ágreiningi um forsjá barna aðila, umgengni og meðlag. Með dómi héraðsdóms var málsaðilum dæmd sameiginleg forsjá dætra sinna en lögheimili þeirra ákvarðað hjá gagnaðila. Með dómi Landsréttar var hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að forsjá barnanna skyldi vera hjá gagnaðila. Í dómi Landsréttar var tekið fram að  gögn  málsins  og  frásögn  aðila  fyrir  dómi  hefðu gefið  ótvírætt  til  kynna  að samskiptavandi  þeirra  væri  mikill  og  djúpstæður og því væru  ekki  forsendur  fyrir sameiginlegri  forsjá.  Í  málinu    fyrir  matsgerð  þar  sem  komist  var    þeirri niðurstöðu að gagnaðili hefði í gegnum tíðina borið mun meiri ábyrgð á uppeldi barnanna og væri þeim mjög náin. Þá hefðu bæði börnin eindregið látið í ljós vilja til að vera í umsjá gagnaðila og eiga lögheimili hjá henni. Enn fremur hefði yngra barnið sýnt mjög alvarleg áfallastreitueinkenni að undanförnu sem tengdust meðal annars ótta þess við að fara í umsjá föður síns. Þá taldi rétturinn að það þjónaði ekki hagsmunum barnanna að kveða á um umgengni þeirra við leyfisbeiðanda. Meðan á málaferlum hefur staðið varð eldri dóttir þeirra 18 ára gömul og því snýr málið nú einungis að yngri dótturinni.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins varði verulega mikilvæga hagsmuni sína. Dóttur hans hafi verið ljóst og leynt haldið frá honum þannig að hann hafi ekki fengið að hitta hana, fá upplýsingar um hana eða á nokkurn hátt fengið að fylgjast með henni. Leyfisbeiðandi lítur svo á að með niðurstöðu Landsréttar hafi gagnaðili styrkt stöðu sína með því að koma í veg fyrir að hann geti átt samskipti við dóttur sína. Vísar hann til þess að niðurstaða héraðsdóms hafi verið ítarlega rökstudd. Þegar málið hafi verið flutt í héraði hefðu dætur aðila lýst því yfir að þær vildu einungis lúta forsjá móður sinnar. Þrátt fyrir það var það mat dómsins að best væri fyrir þær að forsjá væri hjá báðum foreldrum. Einnig hefði það verið talið þjóna hagsmunum yngri dótturinnar best að hún ætti reglulega umgengni við föður sinn. Sömu upplýsingar um vilja dætranna hefðu legið fyrir þegar dómur var kveðinn upp í Landsrétti. Þá telur leyfisbeiðandi að Landsréttur hafi ekki byggt á réttu mati á aðstæðum eða þeim gögnum og upplýsingum sem lágu fyrir. C sálfræðingur hafi unnið afar vandaða matsgerð í málinu og einnig lýst í mjög ítarlega fyrir héraðsdómi hvers vegna hún teldi það þjóna hagsmunum yngri dóttur aðila best að forsjá hennar væri sameiginleg og að ákveðin yrði regluleg umgengni barnsins við leyfisbeiðanda.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að leyfisbeiðandi hafi sérstaklega mikilvæga hagsmuni af áfrýjun eins og málið liggur fyrir, sbr. 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.