Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-111

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Kristina Zyla (Þórður Heimir Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fíkniefnalagabrot
  • Peningaþvætti
  • Ákæra
  • Sönnun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 12. júlí 2024 leitar Kristina Zyla leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 24. maí sama ár í máli nr. 337/2023: Ákæruvaldið gegn X, Y og Kristina Zyla. Dómurinn var birtur 20. júní 2024. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærð fyrir peningaþvætti samkvæmt 1. mgr. 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 ásamt fleirum fyrir að hafa á tímabilinu 18. til og með 20. janúar 2023 tekið við tilgreindum fjármunum frá óþekktum aðila eða aðilum en henni hefði ekki getað dulist um væri að ræða ávinning af refsiverðum brotum. Hún hefði móttekið hluta fjármunanna í íslenskum krónum og skipt í evrur.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda og ákvörðun refsingar sem ákveðin var fangelsi í tvo mánuði skilorðsbundið til tveggja ára. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að hafna frávísunarkröfu leyfisbeiðanda og meðákærðu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Landsréttur tók fram að í dómaframkvæmd hefði ekki verið gerð sú krafa að fyrir lægi um hvaða brot væri nákvæmlega að ræða, heldur yrði að meta í ljósi atvika hverju sinni hvort sýnt hefði verið nægilega fram á að ávinningur væri ekki af lögmætum toga. Í ákærunni væri því lýst hver sú háttsemi væri sem ákært var fyrir, hvar og hvenær brotið væri talið hafa verið framið, heiti þess að lögum og jafnframt lýst þeim ávinningi sem orðið hefði af brotinu. Taldi Landsréttur því að ekki væru þeir ágallar á ákæru að leyfisbeiðandi og meðákærðu gætu ekki af henni ráðið hvaða refsiverða háttsemi þau væru sökuð um. Engu breytti þótt í ákæru væri eingöngu vísað til þess að ákærðu hefðu tekið við tilgreindri fjárhæð í evrum frá „óþekktum aðila eða aðilum“, enda lyti ætluð refsiverð háttsemi að því að hafa móttekið fjármunina í íslenskum krónum og skipt þeim í tiltekna fjárhæð í evrum. Framburður leyfisbeiðanda og meðákærðu var talinn misvísandi og ótrúverðugur og þau ekki talin hafa sýnt með neinum hætti fram á að fjármunanna hefði verið aflað með lögmætum hætti.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi og efni til. Byggir hún á því að ákæra í málinu hafi ekki fullnægt skilyrðum c-liðar 1. mgr. 152. gr. laga nr. 88/2008. Slík tvímæli séu uppi um hverjar sakargiftirnar voru hvað frumbrotin varðar að vísa hafi átt ákærunni frá dómi. Þá hafi í niðurstöðu héraðsdóms og Landsréttar ekki verið fjallað sérstaklega um frávísunarkröfu hennar heldur hafi hún verið samsömuð við meðákærðu og telur hún það ekki standast meginreglur um réttláta málsmeðferð. Þá þurfi Hæstiréttur að leysa úr því hvað það feli í sér að ekki þurfi að liggja fyrir nákvæm tilgreining á því hvert frumbrotið sé. Ekki standist að vísa einungis til refsiverðra brota í ákæru og geti það ekki falið í sér lágmarksskírskotun til refsiverðs brots.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar. Beiðninni er því hafnað.