Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-146

B (Halldór Kr. Þorsteinsson lögmaður)
gegn
A (Óskar Sigurðsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Uppsögn
  • Áminning
  • Skaðabótakrafa
  • Stjórnsýsla
  • Sveitarfélög
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 16. október 2025 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 2. sama mánaðar í máli nr. 530/2024: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda um skaðabætur úr hendi gagnaðila vegna uppsagnar úr starfi í kjölfar áminningar og endurgreiðslu afdreginna launa.

4. Með héraðsdómi var komist að þeirri niðurstöðu að uppsögn leyfisbeiðanda hefði verið ólögmæt og bætur til að hans ákveðnar 6.000.000 króna að álitum. Þá var krafa hans um vangoldin laun tekin til greina að hluta. Með dómi Landsréttar var gagnaðili hins vegar sýknaður af kröfum leyfisbeiðanda. Í dóminum kom fram að ákvörðun um áminningu og síðar uppsögn starfsmanns væru matskenndar stjórnvaldsákvarðanir og yrði að játa þeim sem þær tækju nokkurt svigrúm. Sættu slíkar ákvarðanir ekki öðrum takmörkunum en leiddi af lögum og grunnreglum stjórnsýsluréttar. Landsréttur taldi skilyrði fyrir veitingu áminningar hafa verið uppfyllt. Í málinu lægi fyrir að leyfisbeiðandi hefði, eftir að hafa verið veitt áminning vegna ólögmætra forfalla, verið fjarverandi í að minnsta kosti tólf skipti á tilgreindu tímabili án lögmætrar ástæðu að mati gagnaðila. Var ekki talið að gagnaðili hefði brotið gegn rannsóknarskyldu eða andmælarétti leyfisbeiðanda. Landsréttur taldi að sýnt hefði verið fram á með fullnægjandi hætti að málefnalegar ástæður hefðu legið að baki uppsögninni og skilyrði fyrir henni uppfyllt. Af gögnum málsins yrði jafnframt ráðið að grundvöllur áminningar og síðar uppsagnar hafi verið almennur vandi en ekki einstök tilvik. Þá féllst Landsréttur ekki á að gagnaðili hefði brotið gegn ákvæðum reglugerðar nr. 1009/2015 um aðferðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum í tengslum við uppsögn leyfisbeiðanda eða meðferð máls hans að öðru leyti. Þá hefði ekki þýðingu að gagnaðili hefði ekki sérstaklega borið undir dóm niðurstöðu innviðaráðuneytisins um að ákvörðun um uppsögn hefði verið ólögmæt.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Þannig sé málið fordæmisgefandi um skyldur starfsmanns til að tilkynna veikindafjarvistir til atvinnurekanda án þess að læknisvottorða sé aflað. Leyfisbeiðandi telur ekki geta leitt af orðalagi ákvæða kjarasamnings að þau leggi þá skyldu á starfsmann að tilkynna daglega um veikindi. Þá verði þau ekki túlkuð svo rúmt að þau veiti vinnuveitanda heimild til að draga af launum starfsmanns sem svari þeim tíma sem viðkomandi var fjarverandi vegna veikinda án undanfarandi tilkynningar. Málið hafi jafnframt verulegt almennt gildi um skuldbindingargildi úrskurða innviðaráðuneytisins fyrir málsaðila í skilningi XI. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Loks er á því byggt að dómur Landsréttar sé rangur að efni til.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.