Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-118
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Kynferðisbrot
- Börn
- Sönnunarmat
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 26. mars 2021 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. febrúar sama ár í málinu nr. 907/2018: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að verða við beiðninni.
3. Landsréttur kvað áður upp dóm í máli þessu 24. janúar 2020. Með dómi Hæstaréttar 15. október í máli nr. 16/2020 var sá dómur ómerktur vegna annmarka á aðferð við sönnunarmat og málinu vísað til Landsréttar til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju.
4. Með dómi Landsréttar 26. febrúar 2021 var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn dóttur sambýliskonu sinnar með því að hafa tvisvar haft við hana önnur kynferðismök en samræði. Voru brotin talin varða við 1. mgr. 194. gr. svo og 1. og 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá var leyfisbeiðandi sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa skoðað í farsíma sínum 85 ljósmyndir og eina hreyfimynd sem sýndu börn á kynferðislegan hátt. Var sú háttsemi talin varða við 2. mgr. 210. gr. a almennra hegningarlaga. Loks var leyfisbeiðandi fundinn sekur um fíkniefnalagabrot og sú háttsemi talin varða við tilgreind ákvæði laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni. Refsing leyfisbeiðanda var ákveðin fangelsi í þrjú ár. Með héraðsdómi hafði leyfisbeiðandi verið sýknaður af fyrsta ákæruliðnum en sakfelldur samkvæmt 2. og 3. lið ákæru.
5. Leyfisbeiðandi telur að skilyrði 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Vísar hann sérstaklega til lokamálsliðar ákvæðisins þar sem hann hafi samkvæmt dómi Landsréttar verið sakfelldur fyrir nauðgun og kynferðisbrot gegn barni en sýknaður af þeim ákærulið í héraðsdómi, auk þess sem einn dómari í Landsrétti hafi skilað sératkvæði og talið að sýkna bæri hann af sama ákærulið. Leyfisbeiðandi byggir meðal annars á því „að til grundvallar niðurstöðu dómsins um sönnun hafi ekki verið gætt þeirrar hlutlægni sem réttarfarsreglur sakamálaréttar geri ráð fyrir að beitt sé við dómsmeðferð til að ná réttri niðurstöðu.“ Leyfisbeiðandi telur að í úrlausn Landsréttar felist „fordæmi um undantekningu frá viðurkenndum sönnunarreglum þess efnis að í tilviki kynferðisbrotamála gegn börnum geti nægt til sakaráfellis að meintur brotaþoli beri fram sakir á hendur manni með framburði sem telst trúverðugur að mati dómsins.“ Þá leggur leyfisbeiðandi áherslu á að það þyki draga úr áreiðanleika skýrslna ungra barna ef þau eru yfirheyrð oftar en einu sinni eins og gert hafi verið í þessu máli. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilsverða hagsmuni sína og fjölskyldu, auk þess að hafa verulega almenna þýðingu um þá aðferð sem Landsréttur beitti við sönnunarmat í málinu.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þau þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu byggir jafnframt að verulegu leyti á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar leyfisbeiðanda, brotaþola og nafngreindra vitna, en það mat verður ekki endurskoðað fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laganna. Skiptir í því sambandi ekki sköpum þótt einn dómenda í Landsrétti hafi skilað sératkvæði og viljað sýkna leyfisbeiðanda af hluta ákæruefnanna. Af framangreindu er ljóst að áfrýjun til réttarins mun ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar, sbr. lokamálslið 4. mgr.sömu greinar. Samkvæmt þessu er beiðni um áfrýjunarleyfi hafnað.