Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-130
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Stjórnvaldsákvörðun
- Börn
- Fóstur
- Málefni fatlaðra
- Jafnræði
- Rannsóknarregla
- Stjórnarskrá
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 16. apríl 2019 leitar Barnaverndarstofa eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars sama ár í málinu nr. 551/2018: A gegn Barnaverndarstofu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. A leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um að felldur verði úr gildi úrskurður úrskurðarnefndar velferðarmála 27. maí 2016 þar sem staðfest var ákvörðun leyfisbeiðanda 19. nóvember 2015 um að hafna umsókn gagnaðila um leyfi til að taka barn í varanlegt fóstur. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila en með áðurnefndum dómi komst Landsréttur að gagnstæðri niðurstöðu. Ágreiningur aðila snýr einkum að því hvort leyfisbeiðanda hafi verið rétt að synja gagnaðila um leyfi til að gerast fósturforeldri á grundvelli þess að hún uppfyllti ekki vegna fötlunar almenn skilyrði um heilsufar samkvæmt 6. gr. reglugerðar nr. 804/2004 um fóstur án þess að gefa henni kost á að sækja námskeið eftir 9. gr. reglugerðarinnar. Landsréttur taldi að líta yrði svo á að gagnaðila hafi verið synjað um leyfið þegar af þeirri ástæðu að ekki hafi reynt á það áður að einstaklingur sem njóti notendastýrðrar persónulegrar aðstoðar tæki að sér fósturbarn. Þá var talið að niðurstaða stjórnvalda og héraðsdóms um að gagnaðili teldist ekki vera við góða almenna heilsu væri í ríkum mæli leidd af fötlun hennar. Þessir þættir hefðu á hinn bóginn átt að koma til skoðunar eftir ákvæðum 9. og 10. gr. reglugerðarinnar og á námskeiði sem gagnaðila hafi ekki verið gefinn kostur á að sækja. Úrskurðurinn frá 27. maí 2016 var því felldur úr gildi vegna annmarka á rannsókn málsins og undirbúningi ákvörðunar leyfisbeiðanda.
Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi um hvernig stjórnvöldum beri að beita jafnræðisreglunni og rannsóknarreglunni. Þá varði niðurstaða málsins mikilvæga hagsmuni barna sem setja þurfi í varanlegt fóstur. Loks sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur þar sem litið hafi verið framhjá meginmarkmiðum barnaverndarlaga nr. 80/2002, 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrárinnar og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, um að hagsmunir barna skuli ávallt skipta mestu þegar teknar séu ákvarðanir sem varði þau.
Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa verulegt almennt gildi um skýringu reglna á sviði stjórnskipunarréttar, stjórnsýsluréttar og barnaréttar. Er beiðni um áfrýjunarleyfi því tekin til greina.