Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-98

Stjörnugrís hf. (Sigurður Kári Kristjánsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skattur
  • Gjaldtaka
  • Endurgreiðsla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 9. apríl 2021 leitar Stjörnugrís hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. mars sama ár í málinu nr. 73/2020: Stjörnugrís hf. gegn íslenska ríkinu, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um endurgreiðslu á svonefndu yfirmatsgjaldi sem hann innti af hendi á árunum 2014 til 2018 á grundvelli þágildandi 2. mgr. 16. gr. laga nr. 96/1997 um slátrun og sláturafurðir. Samkvæmt ákvæðinu skyldi innheimta sérstakt gjald af sláturleyfishöfum til að standa straum af kostnaði við yfirmat samkvæmt lögunum. Fjárhæð gjaldsins skyldi vera 0,55 krónur á hvert kíló kjöts sem innvegið væri í sláturhúsi og var ráðherra veitt heimild til að kveða nánar á um innheimtu gjaldsins. Leyfisbeiðandi byggir kröfu sína á því að gjaldið sé ólögmætt þar sem það teljist vera þjónustugjald en ekki skattur og að innheimtu þess skorti fullnægjandi lagastoð. Þá hafi ekkert yfirmat farið fram hjá leyfisbeiðanda á vegum Matvælastofnunar í meira en áratug.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Vísaði rétturinn til þess að greiðsluskylda leyfisbeiðanda væri byggð á fortakslausum fyrirmælum fyrrnefnds lagaákvæðis. Umrætt gjald hefði verið sett samkvæmt fastákveðnu viðmiði án þess að ráðherra eða öðrum stjórnvöldum hefði verið falið mat eða framselt vald til að ákveða fjárhæð gjaldsins, nánari viðmið fyrir álagningu þess eða endurgreiðslur. Gæti það ekki haggað greiðsluskyldu sláturleyfishafa að gjaldinu hafi verið ætlað að standa straum af kostnaði við yfirmat og að slíkt yfirmat færi í sumum tilvikum ekki fram. Loks benti Landsréttur á að lögmæti þeirrar framkvæmdar stjórnvalda að undanskilja framleiðendur alifuglakjöts umræddu yfirmatsgjaldi félli utan sakarefnis málsins og gæti auk þess ekki haggað greiðsluskyldu leyfisbeiðanda samkvæmt fortakslausum fyrirmælum fyrrnefnds lagaákvæðis.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi um það hvort innheimta gjalda með þeim hætti sem um ræðir í málinu teljist lögmæt. Þá sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til þar sem ranglega hafi verið fallist á að um skattheimtu væri að ræða. Í þeim efnum vísar leyfisbeiðandi til þess að umrætt gjald skorti þá þætti sem almennt einkenni skattlagningu. Hafi gjaldinu enda verið ætlað að mæta kostnaði við að veita tiltekna þjónustu og ráðherra framselt vald til að kveða nánar á um innheimtu gjaldsins. Þá skyldi innheimta gjaldsins með réttu vera háð því ófrávíkjanlega skilyrði að óskað væri eftir yfirmati og að það færi í reynd fram. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að stjórnvöld hafi með framkvæmd sinni undanfarin ár sýnt að þau líti svo á að um þjónustugjald sé að ræða sem framkvæmdarvaldið hafi forræði á hverjir skuli greiða. Í þeim efnum vísar leyfisbeiðandi meðal annars til þess að ráðherra hafi með reglugerð nr. 500/2017 um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða undanskilið tiltekna framleiðendur umræddu gjaldi sem auk þess feli í sér mismunun milli sláturleyfishafa. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni leyfisbeiðanda.

6. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni en telur þó vafa leika á að skilyrði 176. gr. laga nr. 91/1991 um veitingu áfrýjunarleyfis séu uppfyllt. Að mati gagnaðila er dómur Landsréttar vel rökstuddur. Hann byggir á að umrædd gjaldtaka beri öll merki þess að vera skattlagning og hafi því verið lögmæt. Gagnaðili bendir á að skylt hafi verið að innheimta gjaldið, hinir skattskyldu aðilar hafi verið tilgreindir í lagaákvæðinu og að viðmið skattsins komi þar fram berum orðum. Þá hafi Hæstiréttur ítrekað fjallað um skilyrði gjaldtökuheimilda og mun á sköttum og þjónustugjöldum. Verði ekki séð að dómur í málinu myndi bæta verulegu við þá framkvæmd svo almennt gildi hefði. Gagnaðili telur jafnframt að leyfisbeiðandi hafi ekki fært rök fyrir því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni fyrir hann auk þess sem ekki sé uppfyllt það skilyrði að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng.

7. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem þegar hafa gengið, né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.