Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-130
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Útlendingur
- Stjórnsýsla
- Stjórnvaldsákvörðun
- Andmælaréttur
- Vegabréfsáritun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 4. nóvember 2022 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 7. október sama ár í máli nr. 69/2021: A gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að fá ógiltan úrskurð kærunefndar útlendingamála og fellda úr gildi ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja henni um vegabréfsáritun til Íslands vegna fyrirhugaðrar ferðar hennar til landsins og dvalar í einn mánuð árið 2018. Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að leyfisbeiðandi uppfyllti ekki skilyrði vegabréfsáritunar. Leyfisbeiðandi skaut ákvörðuninni til kærunefndar útlendingamála sem staðfesti hana með úrskurði meðal annars vegna þess að talin væri hætta á að leyfisbeiðandi myndi dveljast lengur á Schengen-svæðinu en henni væri heimilt.
4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfu leyfisbeiðanda og Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að ekki yrði fallist á það með leyfisbeiðanda að andstætt væri lögum eða á einhvern hátt ómálefnalegt að líta til þeirra sjónarmiða sem lágu til grundvallar niðurstöðu kærunefndar útlendingamála.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísar hún meðal annars til þess að enginn dómur hafi fallið sem varði vegabréfsáritun til einstaklinga sem komi til landsins sem ferðamenn. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggir hún á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, einkum þar sem upplýsingar sem Útlendingastofnun byggði synjun sína á um tilgang heimsóknar hennar hafi verið óáreiðanlegar. Auk þess hafi verið brotið gegn andmælarétti hennar við meðferð málsins hjá kærunefndinni en Landsréttur hafi ranglega talið að þau andmæli hefðu engu breytt.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.