Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-168
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Fasteignakaup
- Galli
- Skaðabætur
- Afsláttur
- Upplýsingaskylda
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 22. desember 2022 leita Ingimar Vignisson, Vignir Ásmundur Sveinsson og Helga Björg Ingimarsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 25. nóvember sama ár í máli nr. 459/2021: Bjarni Guðmundur Ragnarsson og Særún Ægisdóttir gegn Ingimar Vignissyni, Vigni Ásmundi Sveinssyni og Helgu Björgu Ingimarsdóttur og gagnsök. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að sölu gagnaðila á fasteigninni að Húnabraut 8 á Blönduósi til leyfisbeiðenda samkvæmt kaupsamningi og afsali 1. apríl 2016. Leyfisbeiðendur telja fasteignina haldna margvíslegum göllum þannig að fullnægt sé skilyrðum til þess að beita vanefndaúrræðum laga nr. 40/2002 um fasteignakaup, aðallega riftunar en til vara greiðslu skaðabóta eða afsláttar af kaupverði.
4. Með héraðsdómi voru leyfisbeiðendur taldir hafa glatað rétti til riftunar kaupsamningsins vegna tómlætis en dómurinn taldi eignina gallaða þannig að þau ættu rétt á afslætti. Var gagnaðilum gert að greiða leyfisbeiðendum 9.949.804 krónur auk nánar tilgreindra vaxta. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að leyfisbeiðendur hefðu glatað rétti sínum til riftunar. Þá sýknaði Landsréttur gagnaðila af öðrum kröfuliðum leyfisbeiðenda en tveimur liðum sem annars vegar vörðuðu leka í útveggjum og hins vegar skemmdir á bílskúrsþaki. Taldi rétturinn að gagnaðilar hefðu brugðist upplýsingaskyldu sinni um fyrrgreinda atriðið þannig að líta yrði á fasteignina sem gallaða auk þess sem talið var að ástand þaks yfir bílskúr hefði fullnægt skilyrðum til þess að teljast til galla. Að álitum var gagnaðilum gert að greiða leyfisbeiðendum 5.245.406 krónur auk nánar tilgreindra vaxta vegna framangreindra galla auk kostnaðar við palla og málun innandyra.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi, einkum um sönnunargildi matsgerða þegar ekki hefur verið leitað yfirmats. Þá byggja þau á því að málið varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks byggja þau á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í því sambandi vísa þau meðal annars til þess að túlkun réttarins á 2. mgr. 42. gr. laga nr. 40/2002 fari gegn dómaframkvæmd auk þess sem rökstuðningur réttarins sé í ósamræmi við meginreglur skaðabóta-, fasteignakaupa- og kröfuréttar sem og réttarfars. Þá hafi Landsréttur lagt rangt mat á kostnað við úrbætur á húsnæði á landsbyggðinni.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.