Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-87

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
X (Sigurður Sigurjónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skattalög
  • Einkahlutafélag
  • Virðisaukaskattur
  • Bókhaldsbrot
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni dagsettri og móttekinni 19. júní 2024 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. maí sama ár í máli nr. 247/2023: Ákæruvaldið gegn X og Y. Leyfisbeiðanda var birtur dómurinn 21. maí 2024. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Með dómi Landsréttar var staðfestur héraðsdómur um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 3. tölulið 1. mgr. 37. gr., sbr. 36. gr. laga nr. 145/1994 um bókhald. Samkvæmt dóminum fólust brot hans í því að hafa sem raunverulegur framkvæmdastjóri félagsins Ö ehf. staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum á nánar tilgreindum tímabilum á árunum 2012 til 2015, með því að hafa offramtalið innskatt á grundvelli rangra og tilhæfulausra sölureikninga gefnum út af fjórum tilgreindum fyrirtækjum og þar með ekki staðið skil á virðisaukaskatti samtals að fjárhæð 64.036.383 krónur og þannig hafa fært eða látið færa ranga og tilhæfulausa sölureikninga í bókhald Ö ehf. á sama tímabili sem leitt hafi til þess að innskattur félagsins hafi verið offramtalinn um fyrrgreinda fjárhæð. Var leyfisbeiðandi dæmdur í fangelsi 15 mánuði, skilorðsbundið í þrjú ár. Þá var honum gert að greiða ríflega 64 milljóna króna sekt til ríkissjóðs.

4. Leyfisbeiðandi byggir einkum á því að í málinu liggi fyrir skjalleg gögn sem sýni að lögmætir reikningar hafi legið að baki greiðslum til þriðja aðila. Því hafi ekki verið til að dreifa brotum á lögum um virðisaukaskatt þegar umræddir reikningar voru greiddir eins og ákæruvaldið byggi á. Ákærði telur að dómur í málinu sé bersýnilega rangur að efni til hvað þetta varðar og að ekki liggi fyrir lögfull sönnun um að umræddir reikningar hafi verið tilhæfulausir. Þá telur leyfisbeiðandi að ákvörðun refsingar í málinu hafi ekki verið í samræmi við dómaframkvæmd en dómstólar hafi skilorðsbundið refsiviðurlög, bæði fangelsis- og sektarrefsingu, þegar málsmeðferðartími í sakamáli þyki óhæfilega langur eins og raunin hafi verið í þessu máli.

5. Í 2. mgr. 217. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um að umsókn um áfrýjunarleyfi skuli berast ríkissaksóknara innan fjögurra vikna frá birtingu dóms hafi birtingar verið þörf samkvæmt 3. mgr. 185 gr. laganna en ella innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu. Ekki var sótt um áfrýjunarleyfi innan lögmæltra tímamarka. Þegar af þeirri ástæðu er beiðni leyfisbeiðanda um áfrýjunarleyfi hafnað.