Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-49

A (Þ. Skorri Steingrímsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Fanney Rós Þorsteinsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótamál
  • Sjúklingatrygging
  • Lögskýring
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

2. Með beiðni 2. apríl 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 22. mars 2024 í máli nr. 45/2023: A gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila í málinu snýr að því við hvaða vísitölu beri að miða framreikning skaðabóta samkvæmt 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðanda á hendur gagnaðila um skaðabætur samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga vegna missis framfæranda eftir að eiginmaður hennar lést í kjölfar meðferðar á sjúkrahúsi.

4. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Gagnaðili hafði viðurkennt bótaskyldu gagnvart leyfisbeiðanda að tiltekinni fjárhæð að frádreginni greiðslu Sjúkratrygginga Íslands til leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar var rakið upphaflegt ákvæði 7. gr. skaðabótalaga og breytingar á ákvæðinu með 6. gr. laga nr. 37/1999. Ljóst væri að þegar skaðabótalög tóku gildi árið 1993 hefði hámark skaðabóta í þágildandi 3. mgr. 7. gr. verið bundið við lánskjaravísitölu. Þegar lögunum hefði verið breytt með lögum nr. 37/1999 hefði lagatilvísunum í 1. mgr. 15. gr. ekki verið breytt og því ekki lengur í þeirri grein kveðið á um það berum orðum að hámark skaðabóta samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna tæki breytingum eftir lánskjaravísitölu. Af lögskýringargögnum yrði þó ekki ráðið að ætlun löggjafans hefði verið að hverfa frá því fyrirkomulagi að hámark skaðabóta samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna tæki breytingum frá því viðmiði. Bentu ummæli í athugasemdum í greinargerð með frumvarpi til laganna þvert á móti eindregið til þess að það hefði ekki verið ætlunin. Var ákvæði 1. mgr. 15. gr. skaðabótalaga því skýrt svo að hámark skaðabóta samkvæmt 4. mgr. 7. gr. laganna tæki breytingum miðað við lánskjaravísitölu frá og með gildistöku laganna.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í fyrsta lagi hafi úrlausn málsins fordæmisgildi um hvernig beri að túlka 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Í öðru lagi geti málið haft fordæmisgildi um lagaáskilnað stjórnarskrárinnar um hve ríkar kröfur verði gerðar til skerðingarheimildar 4. mgr. 7. gr. skaðabótalaga. Þá varði úrslit málsins mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda en mikill munur sé á dómkröfu leyfisbeiðanda og þeirri fjárhæð sem fallist hafi verið á. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að dómur í því geti haft fordæmisgildi en Hæstiréttur hefur tekið afstöðu til þess álitamáls sem reynir á í málinu með dómi 18. september 2014 í máli nr. 142/2014. Þá verður heldur ekki talið að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 3. málsliðar 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 eða að dómur Landsréttar sé bersýnlega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.