Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-21
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Brot gegn blygðunarsemi
- Kynferðisleg áreitni
- Sönnun
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 14. janúar 2025 leitar X leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 17. desember 2024 í máli nr. 277/2024: Ákæruvaldið gegn X. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi sakfelld fyrir brot gegn 199. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 með því að hafa áreitt einn brotaþola kynferðislega en sýknuð af því að hafa brotið gegn blygðunarsemi sama brotaþola og tveggja annarra samkvæmt 209. gr. almennra hegningarlaga og 1. og 3. mgr. 99. gr. barnaverndarlaga. Í dómi Landsréttar var hins vegar talið sannað með trúverðugum framburði brotaþolanna, sem fengi stuðning í framburði vitna, að leyfisbeiðandi hefði brotið gegn blygðunarsemi þeirra allra með því að hafa viðhaft við þá kynferðislegt, vanvirðandi og ósiðlegt tal eins og lýst væri í ákæru. Var leyfisbeiðandi sakfelld fyrir brot gegn 209. gr. almennra hegningarlaga. Þá var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að leyfisbeiðandi hefði áreitt einn brotaþola kynferðislega. Refsing var ákveðin fangelsi í tvo mánuði en fullnustu hennar frestað skilorðsbundið í tvö ár.
4. Leyfisbeiðandi vísar meðal annars til 4. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008, þar sem mælt er fyrir um að hafi ákærði verið sýknaður af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti skuli verða við ósk um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji augljóst að hún muni ekki verða til að breyta dómi Landsréttar. Leyfisbeiðandi áréttar að dómsniðurstaðan byggi ekki á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar heldur snúi að beitingu réttarreglna og heimfærslu til refsiákvæða. Landsréttur hafi snúið við niðurstöðu héraðsdóms á grundvelli almennra viðmiða án þess að horfa til upplifunar brotaþola sem liggi skýr fyrir í framburði þeirra hjá lögreglu og fyrir dómi. Þá fjalli Landsréttur ekki um aldur eða aðstæður brotaþola eða atvik máls að öðru leyti. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að almennum skilyrðum áfrýjunarleyfis sé mætt þar sem beiðnin lúti að atriði sem hafi verulega almenna þýðingu og mikilvægt sé að fá úrlausn um. Ástæða kunni að vera til að ómerkja dóm Landsréttar. Leyfisbeiðandi hafi verið dæmd fyrir aðra háttsemi en henni hafi verið gefin að sök í ákæru auk þess sem framburður brotaþola sé á reiki, ekki hafi verið sýnt fram á huglæga afstöðu eða ásetning hennar til þess að fremja brot og þá séu skilyrði 199. gr. almennra hegningarlaga ekki uppfyllt.
5. Samkvæmt 4. málslið 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 skal verða við ósk ákærðs manns, sem sýknaður er af ákæruefni í héraðsdómi en sakfelldur fyrir Landsrétti, um leyfi til áfrýjunar nema Hæstiréttur telji ljóst að áfrýjun muni ekki verða til þess að breyta dómi Landsréttar. Þar sem slíku verður ekki slegið föstu í tilviki leyfisbeiðanda verður beiðnin samþykkt.