Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-85
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteign
- Afsal
- Ógilding samnings
- Óskipt bú
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 27. júní 2024 leitar B leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 31. maí sama ár í máli nr. 267/2023: A gegn B. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um að afsal D á 50% hlut í fasteign til gagnaðila verði ógilt og aflýst úr þinglýsingarbók. Verði ekki fallist á ógildinguna krefst leyfisbeiðandi skaðabóta eða hækkunar á söluverði fasteignarinnar. Leyfisbeiðandi situr í óskiptu búi eftir D.
4. Með dómi héraðsdóms var afsalið ógilt með vísan til 31. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Landsréttur sýknaði hins vegar gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Í dóminum var rakið að leyfisbeiðandi hefði í fyrstu lýst sig samþykkan afsali D á eignarhlutanum með nafnritun sinni á skjalið en síðar skipt um skoðun. Í dóminum sagði jafnframt að leyfisbeiðandi hefði ekkert aðhafst gagnvart gagnaðila til að fá afsalið fellt úr gildi fyrr en eftir andlát D og frásagnar hennar af atvikum nyti því ekki við. Málatilbúnaður leyfisbeiðanda hefði lotið að því að D hefði ekki verið hæf til að gera hinn umdeilda löggerning en ekki verið byggt á því að hann sjálfan hefði skort hæfi til að veita samþykki sitt fyrir afsalinu. Hvað hann varðaði hefði einungis verið byggt á því að hann þekkti ekki til fasteignamarkaðar á viðkomandi svæði. Taldi Landsréttur að ekkert hefði staðið því í vegi að hann kynnti sér verð fasteigna á því svæði áður en hann lýsti yfir samþykki. Þá taldi Landsréttur að endurgjald það sem gagnaðili innti af hendi fyrir eignarhlutann yrði ekki talið bersýnilegra lægra en markaðsvirði hans í skilningi 31. gr. laga nr. 7/1936.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að forsendur í dómi Landsréttar séu bersýnilega rangar. Með því að Landsréttur geri hæfi leyfisbeiðanda að forsendum fyrir niðurstöðu dómsins sé orðið til fordæmi sem geti ekki staðið í íslenskum rétti. Leyfisbeiðandi hafi ekki ekki verið aðili að viðskiptum sem um ræðir í málinu og D hefði á sínum tíma sjálf getað höfðað dómsmál til að fella afsalið úr gildi með vísan til ógildingarreglna samningarréttar. Hún hafi hins vegar ekki haft andlega burði til þess að átta sig á efni löggerningsins. Leyfisbeiðandi telur ótækt að vísa til andlegs hæfis hans sem maka hennar enda hafi undirritunar hans ekki verið þörf á afsalið þar sem ekki hafi verið um að ræða heimili fjölskyldunnar, sbr. 60. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Ástæða þess að málið sé höfðað í nafni leyfisbeiðanda sé sú að hann sitji í óskiptu búi eftir eiginkonu sína. Að öðrum kosti hefði dánarbú hennar höfðað málið. Að lokum byggir leyfisbeiðandi á því að bersýnilegur munur hafi verið á hagsmunum og endurgjaldi í skilningi 31. gr. laga nr. 7/1936 og að niðurstaða Landsréttar um það atriði sé bersýnilega röng.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir héraðsdómi eða Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.