Hæstiréttur íslands
Nr. 2018-200
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Nauðungarsala
- Úthlutun söluverðs
- Veðréttur
- Vextir
- Fyrning
- Málsástæða
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 16. október 2018 leita Ásthildur Lóa Þórsdóttir og Hafþór Ólafsson leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 3. sama mánaðar í málinu nr. 505/2018: Arion banki hf. gegn Ásthildi Lóu Þórsdóttur og Hafþóri Ólafssyni, á grundvelli 2. mgr. 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu, sbr. 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Arion banki hf. leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um að frumvarpi sýslumanns 18. desember 2017 til úthlutunar á söluverði fasteignar þeirra að Háhæð 1 í Garðabæ við nauðungarsölu verði breytt á þá leið að úthlutun til Arion banka hf. verði lækkuð og leyfisbeiðendum úthlutað sem því nemur af söluverðinu. Í frumvarpinu lagði sýslumaður til grundvallar að Arion banki hf. ætti tilkall til samtals 59.400.000 króna af söluverðinu. Ágreiningur aðila snýr að því hvort Arion banki hf. eigi rétt á að fá úthlutað af söluverði fasteignarinnar greiðslu á samningsvöxtum samkvæmt veðskuldabréfum og dráttarvöxtum af kröfum sínum, sem hafi fallið í gjalddaga meira en einu ári áður en hann krafðist nauðungarsölu á fasteigninni, sbr. b. lið 5. gr. laga nr. 75/1997 um samningsveð, svo og hvort leyfisbeiðendur fái komið að málsástæðu um fyrningu á hluta af kröfum bankans um vexti. Héraðsdómur féllst á kröfu leyfisbeiðenda með úrskurði 5. júní 2018 og komst að þeirri niðurstöðu að frumvarpi sýslumanns skyldi breytt á þann veg að þau fengju úthlutað 19.018.561 krónu af söluverðinu. Með úrskurði Landsréttar var frumvarp sýslumanns á hinn bóginn staðfest.
Leyfisbeiðendur byggja á því að kæruefnið hafi grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins og fjárhagslega hagsmuni þeirra auk þess sem það varði mikilsverða almannahagsmuni. Þá telja leyfisbeiðendur að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Vísa þau einkum til þess að Landsréttur hafi ekki tekið til greina málsástæðu þeirra, sem snýr að því að vextir af kröfu Arion banka hf. hafi að hluta verið fyrndir, á þeim grundvelli að hún hafi komið of seint fram, sbr. 5. mgr. 101. gr. laga nr. 91/1991. Leyfisbeiðendur halda því fram að þau hafi allt frá upphafi málsins byggt á fyrningu vaxta, þar á meðal í mótmælum sínum við frumvarpi sýslumanns.
Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni né að úrlausn um það geti haft fordæmisgildi umfram það, sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum, þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 2. mgr. sömu lagagreinar í málinu. Er beiðninni því hafnað.