Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-61

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Sindra Snæ Birgissyni (Sveinn Andri Sveinsson lögmaður) og Ísidóri Nathanssyni (Unnsteinn Örn Elvarsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Hryðjuverk
  • Vopnalagabrot
  • Tilraun
  • Hlutdeild
  • Upptaka
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 3. apríl 2025 leitar ríkissaksóknari leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 6. mars sama ár í máli nr. 324/2024: Ákæruvaldið gegn Sindra Snæ Birgissyni og Ísidóri Nathanssyni. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Gagnaðilar voru ákærðir fyrir stórfelld vopnalagabrot, annars vegar sem þeir hefðu staðið að í sameiningu og hins vegar hvor fyrir sig. Gagnaðili Sindri var jafnframt ákærður fyrir tilraun til hryðjuverka og brotið talið varða við 1., 2. og 4. tölulið 100. gr. a, sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Gagnaðili Ísidór var ákærður fyrir hlutdeild í því broti.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu gagnaðila fyrir stórfelld vopnalagabrot, meðal annars með því að framleiða og selja skotvopn í auðgunarskyni og gagnaðili Sindri fyrir að hafa í eigu sinni hættuleg skotvopn án þess að hafa skotvopnaleyfi og breytt einu þeirra svo það varð hálfsjálfvirkt, auk þess sem gagnaðilar reyndu að auka enn á hættueiginleika þess með frekari breytingum. Landsréttur staðfesti jafnframt héraðsdóm um sýknu gagnaðila Sindra af tilraun til hryðjuverka og gagnaðila Ísidór fyrir hlutdeild í því broti. Í dómi Landsréttar kom fram að því yrði ekki slegið föstu að gagnaðili Sindri hefði með athöfnum þeim sem greindi í ákæru sýnt ótvírætt í verki ásetning til að fremja hryðjuverk. Þá yrði ekki heldur talið að sýnt hefði verið fram á ásetning gagnaðila Ísidórs til hlutdeildar í slíkum verknaði, auk þess sem það leiddi af niðurstöðu réttarins um þátt gagnaðila Sindra að ekki gæti komið til sakfellingar gagnaðila Ísidórs fyrir hlutdeild. Var gagnaðili Sindri dæmdur til að sæta fangelsi í 18 mánuði og gagnaðili Ísidór í 15 mánuði.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að gagnaðilar hafi verið ranglega sýknaðir af brotum gegn 100. gr. a almennra hegningarlaga og dómurinn sé því bersýnilega rangur að efni. Jafnframt er á því byggt að áfrýjun lúti að atriðum sem mjög mikilvægt sé að fá úrlausn Hæstaréttar um. Leyfisbeiðandi vísar einkum til þess að mikilvægt sé að fá umfjöllun um lagatúlkun Landsréttar og þá um hvaða kröfur eigi að gera varðandi ásetningsstig og sönnun þess þegar um undirbúningsathafnir er að ræða við tilraunabrot. Þá telur leyfisbeiðandi refsingu ákærðu fyrir þau stórfelldu vopnalagabrot sem þeir voru sakfelldir fyrir hafa verið til muna of væga.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að úrlausn þess kunni að hafa verulega almenna þýðingu, einkum um mat á undirbúningsathöfnum tilraunarbrots og 100. gr. a almennra hegningarlaga. Niðurstaða Landsréttar um sakfellingu gagnaðila og önnur atriði að því leyti sem hún byggir á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar verður þó ekki endurskoðuð fyrir Hæstarétti, sbr. 5. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.