Hæstiréttur íslands

Nr. 2022-110

Hróbjartur Jónatansson (sjálfur)
gegn
íslenska ríkinu (Ólafur Helgi Árnason lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabætur
  • Saknæmi
  • Málsforræði
  • Gagnaöflun
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 13. júlí 2022 leitar Hróbjartur Jónatansson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 24. júní sama ár í máli nr. 475/2021: Hróbjartur Jónatansson gegn íslenska ríkinu á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi krafðist þess með réttarbeiðni sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur í ágúst 2018 að Frjálsa lífeyrissjóðnum yrði gert að afhenda honum tilgreind gögn á grundvelli XII. kafla laga nr. 91/1991. Kröfu leyfisbeiðanda var vísað frá dómi með úrskurði héraðsdóms 21. febrúar 2019. Landsréttur hafnaði kröfu leyfisbeiðanda með úrskurði 2. maí 2019 í máli nr. 191/2019.

4. Leyfisbeiðandi höfðaði í kjölfarið mál þetta og krafðist viðurkenningar á bótaskyldu gagnaðila þar sem hann hefði orðið fyrir tjóni sem hann ætti rétt á að fá bætt úr hendi gagnaðila á grundvelli almennu skaðabótareglunnar og 53. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla. Leyfisbeiðandi byggir á því að embættisathafnir þriggja dómara við Landsrétt í fyrrgreindum úrskurði hefðu bersýnilega brotið gegn 111. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 163. gr. sömu laga, enda hefði ekki verið um að ræða atriði sem réttinum hefði borið án kröfu að gæta að. Rétturinn hefði farið út fyrir kröfur málsaðila og efnisleg afstaða verið tekin til dómkrafna sem leyfisbeiðandi hefði haft uppi í héraði og ekki hlotið efnislega meðferð þar.

5. Með dómi Landsréttar 24. júní 2022 var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði til þess að þrátt fyrir að úrskurðarorð héraðsdóms 21. febrúar 2019 hefði kveðið á um frávísun mætti ráða af forsendum úrskurðarins að beiðni leyfisbeiðanda hefði í reynd verið synjað. Í kæru og greinargerð hans til Landsréttar hefði hann komið á framfæri málsástæðum og lagarökum er vörðuðu efni máls og skilyrði 2. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991. Mat á því hvort fallast ætti á beiðni leyfisbeiðanda með hliðsjón af skilyrðum ákvæðisins hefði því í reynd farið fram á tveimur dómstigum. Hvað sem liði kröfugerð hans í umræddu máli nr. 191/2019 hefði Landsrétti við endurskoðun á úrskurði héraðsdóms borið að gæta að lögmæltum skilyrðum XII. kafla laga nr. 91/1991 af sjálfsdáðum, sbr. 3. mgr. 78. gr. laganna. Því yrði það ekki metið dómurum Landsréttar til sakar að hafa vikið frá kröfugerð leyfisbeiðanda í því máli. Þegar af þeirri ástæðu var staðfestur dómur héraðsdóms um sýknu gagnaðila.

6. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að málsmeðferð Landsréttar í máli nr. 191/2019 hafi brotið gegn 111., sbr. 163. gr. laga nr. 91/1991 sem og 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Dómur Hæstaréttar í málinu myndi þannig vera fordæmisgefandi um meðal annars túlkun og gildissvið framangreindra ákvæða laga nr. 91/1991.

7. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðninni er því hafnað.