Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-322
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Riftun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 15. desember 2021 leitar þrotabú Mainsee Holding ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. nóvember sama ár í máli nr. 477/2020: Þrotabú Mainsee Holding ehf. gegn Glitni HoldCo ehf. og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um riftun á greiðslu sem fram fór við yfirtöku gagnaðila á kröfu Mainsee holding ehf., að sömu fjárhæð, á hendur öðru félagi samkvæmt samningi 15. febrúar 2011. Leyfisbeiðandi byggir á því að ráðstöfunin sé riftanleg á grundvelli 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
4. Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 1. júlí 2020 var gagnaðili sýknaður af kröfu leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom fram að hin umdeilda ráðstöfun uppfyllti ekki það grunnskilyrði 141. gr. laga nr. 21/1991 að hafa á ótilhlýðilegan hátt verið gagnaðila til hagsbóta á kostnað annarra, leitt til þess að eignir Mainsee Holding ehf. væru ekki til reiðu til fullnustu kröfuhöfum eða leitt til skuldaaukningar kröfuhöfum til tjóns. Dómur héraðsdóms var því staðfestur.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Í þeim efnum vísar hann til þess að Hæstiréttur verði að hafa síðasta orðið um túlkun reglna sem takmarka endurkröfurétt ábyrgðarmanna. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni kröfuhafa hans. Loks telur hann dóm Landsréttar bersýnilega rangan.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að málið varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.