Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-166
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Stjórnarskrá
- Lánssamningur
- Gjaldþrotaskipti
- Fyrning
- Fyrningarfrestur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 25. nóvember 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 30. október sama ár í máli nr. 772/2024: A gegn Menntasjóði námsmanna. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili höfðaði mál á hendur leyfisbeiðanda til heimtu kröfu samkvæmt skuldabréfi sem leyfisbeiðandi gaf út vegna námsláns sem hann fékk hjá gagnaðila. Til stuðnings sýknukröfu sinni byggði leyfisbeiðandi einkum á því að 2. mgr. 26. gr. laga nr. 60/2020 um Menntasjóð námsmanna, sem kveður á um að ákvæði laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um lengd fyrningarfrests og sérreglur þeirra um slit fyrningar gildi ekki um námslán, fælu í sér ólögmæta mismunun milli skuldara í kjölfar gjaldþrotaskipta. Ákvæðið bryti þannig gegn 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Því bæri að víkja ákvæðinu til hliðar og beita 165. gr. laga nr. 21/1991 í málinu. Þá byggði hann einnig á sjónarmiðum um afturvirkni laga.
4. Með héraðsdómi var leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila nánar tilgreinda fjárhæð. Í þeim efnum var ekki fallist á sjónarmið hans í þá veru að fyrrgreindu ákvæði laga nr. 60/2020 yrði ekki beitt í málinu á grundvelli sjónarmiða um bann við afturvirkni laga. Þyrftu aðilar, hvort heldur kröfuhafar eða skuldarar, að sæta því að fyrning krafna gæti breyst með breyttum lögum. Þá var ekki heldur fallist á að víkja bæri ákvæðinu til hliðar á þeim grunni að það bryti gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Þótti sá greinarmunur sem gerður væri á skuldurum eftir því hvort um námslán eða aðrar skuldir væri að ræða hlutlægur og málefnalegur og rúmast innan þess svigrúms sem löggjafinn nyti. Krafa gagnaðila var því ekki talin háð skilyrðum 165. gr. laga nr. 21/1991 heldur almennum reglum laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans að viðbættum frekari röksemdum.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda lúti það að stjórnskipulegu gildi laga. Ákvæði 2. mgr. 26. gr. laga nr. 60/2020 fari gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 14. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, og beri að víkja því til hliðar. Dómur í málinu myndi ekki einungis varða leyfisbeiðanda heldur alla í sambærilegri stöðu. Þá varði málið einnig sérstaklega mikilvæga hagsmuni hans. Vísar hann einkum til þess að honum sé ljós endurgreiðsluskylda á lánum. Hann sé hins vegar í þeirri stöðu að hafa reynst ógjaldfær, þurft að gefa bú sitt upp til gjaldþrotaskipta og vera eignalaus með öllu.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.