Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-29
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Mannréttindasáttmáli Evrópu
- Miskabætur
- Ómerking ummæla
- Stjórnarskrá
- Tjáningarfrelsi
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
2. Með beiðni 8. mars 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. febrúar sama ár í máli nr. 498/2022: A gegn Maríu Lilju Þrastardóttur Kemp. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið varðar kröfu leyfisbeiðanda um að tilgreind ummæli er gagnaðili viðhafði á Facebook-síðum 10. og 13. mars og 18. maí 2018 yrðu dæmd dauð og ómerk, auk þess sem leyfisbeiðandi krafðist miskabóta úr hendi gagnaðila og að henni yrði gert að greiða sér kostnað af birtingu forsendna dómsins á tveimur vefmiðlum.
4. Með dómi Landsréttar, þar sem staðfestur var héraðsdómur, var gagnaðili sýknuð af kröfum leyfisbeiðanda. Í dómi Landsréttar kom meðal annars fram að líta yrði til þess að leyfisbeiðandi hefði áður en ummælin féllu tekið virkan þátt í þjóðfélagsumræðu um tálmun á umgengnisrétti barna við foreldra. Hluti ummæla gagnaðila hefðu falið í sér gildisdóma og taldi rétturinn að hún hefði ekki farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns með þeim ummælum. Þá taldi Landsréttur að tiltekin ummæli hefðu falið í sér staðhæfingu um staðreynd fremur en gildisdóm. Hvað þau ummæli varðaði leit rétturinn til þess að ummælin hefðu verið sett fram í tilefni af gagnrýni gagnaðila á viðtali við forsvarsmenn hópsins #daddytoo, þeirra á meðal leyfisbeiðanda. Í dóminum sagði að gagnaðili hefði verið þátttakandi í almennri umræðu um mikilvægt samfélagslegt málefni, sem erindi ætti við almenning og nyti af þeim sökum rúms tjáningarfrelsis. Landsréttur lagði til grundvallar að gagnaðili hefði mátt vera í góðri trú um að nægjanlegt tilefni væri til ummælanna.
5. Leyfisbeiðandi vísar meðal annars til þess að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið óréttlát og í ósamræmi við lög. Þannig vísar leyfisbeiðandi til þess að dómarar málsins í Landsrétti hafi sýnt hlutdrægni við lýsingu málsatvika í úrskurði um frávísun málsins 17. nóvember 2023. Þá telur hann að þeir hafi haft í frammi gildishlaðna afstöðu með persónuárásum í dómi. Auk þess sem skrifstofustjóri Landsréttar hafi mismunað honum. Leyfisbeiðandi telur að Landsréttur hafi í reynd lítið fjallað um málið sjálft heldur hafi dómarar réttarins stýrst af persónulegu ósætti gagnvart leyfisbeiðanda og reiði yfir að frávísun málsins hafi verið snúið með dómi Hæstaréttar 21. desember 2023 í máli nr. 55/2023. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að dómurinn sé rangur en í honum hafi verið rangtúlkað hvað felist í að vera í góðri trú. Þá felist í dóminum alvarleg brot gegn réttinum til réttlátrar málsmeðferðar þar sem dómarar hafi meðal annars hunsað gögn málsins og sýnt af sér augljósa kynbundna mismunun. Að endingu vísar leyfisbeiðandi til þess að hann hafi fært sönnur fyrir Landsrétti að ummæli gagnaðila séu ósönn.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.