Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-64
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Gjaldþrotaskipti
- Þrotabú
- Riftun
- Gjöf
- Endurgreiðsla
- Dagsektir
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Björg Thorarensen og Karl Axelsson.
2. Með beiðni 28. apríl 2022 leitar Faxar ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í máli nr. 353/2020: Faxar ehf. gegn þrotabúi Karls Emils Wernerssonar á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Gagnaðili höfðaði mál þetta gegn leyfisbeiðanda og krafðist riftunar á þremur ráðstöfunum þrotamanns, afhendingu fasteignar og greiðslu fjármuna. Annars vegar vegna sölu tveggja fasteigna og hins vegar sölu bifreiðar.
4. Í dómi héraðsdóms var fallist á riftun ráðstöfunar á fasteign á Ítalíu á grundvelli 1. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og leyfisbeiðanda gert að afhenda gagnaðila eignina að viðlögðum dagsektum. Jafnframt var fallist á það með gagnaðila að ráðstöfun fasteignar í Garðabæ, fyrir verð sem hefði verið langt undir markaðsverði eignarinnar, hefði falið í sér gjafagerning sem riftanlegur væri samkvæmt 2. mgr. 131. gr. laga nr. 21/1991. Var því fallist á kröfu gagnaðila um riftun þeirrar ráðstöfunar auk þess sem leyfisbeiðanda var gert að greiða gagnaðila bætur vegna þessa. Loks var lagt til grundvallar að þrotamaður hefði afsalað tilgreindri bifreið til leyfisbeiðanda með tilkynningu til bifreiðarskrár eftir frestdag án þess að nokkurt endurgjald hefði komið á móti og því fallist á að sú ráðstöfun væri riftanleg á grundvelli 2. mgr. 139. gr. laga nr. 21/1991 og leyfisbeiðanda gert að greiða gagnaðila bætur vegna þessa. Með dómi Landsréttar var niðurstaða héraðsdóms staðfest að öðru leyti en því að dagsektir kæmu til að liðnum 30 dögum frá uppsögu dóms Landsréttar. Í dómi réttarins kom meðal annars fram að færslur í bókhaldi og efnahagsreikningi leyfisbeiðanda og tveggja annarra félaga sem hann reisti málatilbúnað sinn á fengju ekki næga stoð í öðrum gögnum málsins.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísar hann meðal annars þar um til þýðingar dóma Landsréttar 3. desember 2021 í málum nr. 52 og 53/2021 fyrir ágreining aðila þessa máls með hliðsjón af 4. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991. Jafnframt hafi verulegt almennt gildi að Hæstiréttur leggi mat á sönnunargildi samtímagagna í málinu. Þá reisir hann beiðni sína á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Um það vísar hann til þess að undirliggjandi hagsmunir hans nemi hundruðum milljóna króna. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að ákvörðun um að hafna frekari frestun málflutnings í málinu hafi ekki verið tekin í samræmi við ákvæði 3. mgr. 160. gr. laga nr. 91/1991. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Þannig hafi rétturinn ekki tekið afstöðu til tilgreindra ágreiningsefna málsins auk þess sem niðurstaða um gildi samtímagagna hafi verið bersýnilega röng.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki séð að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.