Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-81
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Þrotabú
- Riftun
- Endurgreiðsla
- Vanhæfi
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 22. júní 2023 leitar Jón Ó. Ragnarsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. maí sama ár í máli nr. 98/2022: Jón Ó. Ragnarsson gegn Þrotabúi Harrow House ehf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.
3. Málið lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu 12.913.593 króna auk vaxta. Ágreiningur aðila varðar lögmæti greiðslna Harrow House ehf. til leyfisbeiðanda.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að fallast á kröfu gagnaðila. Dómurinn taldi leyfisbeiðanda bera sönnunarbyrði fyrir því að greiðslur Harrow House ehf. til hans og vöru- og þjónustuúttektir hans hjá félaginu hefðu verið greiðslur upp í leiguskuld félagsins við Hótel Valhöll ehf. og að þessar greiðslur hefðu verið framkvæmdar með þessum hætti að fyrirmælum Hótel Valhallar ehf. sem hefði verið í eigu leyfisbeiðanda. Leyfisbeiðandi hefði ekki stutt þessar fullyrðingar nægjanlegum gögnum. Þá taldi Landsréttur að ekki yrði fallist á að í skuldajöfnuði þeim sem færður var í bókhaldi Harrow House ehf. 30. júní 2019 hefði falist leiðrétting, það er að með þeirri færslu hefðu millifærslur félagsins til leyfisbeiðanda verið leiðréttar og færðar til lækkunar á leiguskuld þess við Hótel Valhöll ehf. Væri þá fyrst og fremst til þess litið að leyfisbeiðandi og Hótel Valhöll ehf. væru sjálfstæðir aðilar að lögum og yrðu ekki samsamaðir. Greiðslur til leyfisbeiðanda voru því ekki taldar jafngilda greiðslum til Hótel Valhallar ehf.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um túlkun lagareglna um hæfi dómara en Jón Höskuldsson einn dómara málsins hafi verið vanhæfur á grundvelli g-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991. Felist vanhæfi hans í því að lögmaður leyfisbeiðanda fyrir Landsrétti hafi við rekstur málsins á sama tíma rekið mál á hendur dómaranum persónulega vegna tjóns sem hlotist hafi af mistökum hans og vanrækslu við framkvæmd yfirmats á grundvelli ábúðarlaga nr. 80/2004. Um þetta var vísað til dóms Landsréttar í máli nr. 491/2020 þar sem yfirmatsgerðin hefði verið talin haldin ágöllum. Þá reisir leyfisbeiðandi beiðnina á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni vegna fjárhæðar kröfunnar og aldurs hans. Loks byggir hann á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur þar sem ekki hafi verið tekið tillit til framburðar fyrrum fyrirsvarsmanns Harrow House ehf. fyrir dómi.
6. Fyrir liggur að lögmaður leyfisbeiðanda fyrir Landsrétti hafði fyrir munnlegan flutning málsins þar sent réttinum tölvubréf með fylgiskjölum sem óskað var eftir að bærust landsréttardómaranum Jóni Höskuldssyni. Í meðfylgjandi bréfi til dómarans kom fram að lögmanninum hefði verið falið að reka mál gegn honum og fleirum vegna kröfu sem ekki tengdist þessu máli. Væri þess krafist að dómarinn viki sæti í þessu dómsmáli á grundvelli g-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991. Þessu erindi fylgdi lögmaðurinn ekki eftir við aðalmeðferð og var engin krafa þess efnis höfð þar uppi. Ekkert liggur fyrir um hvort dómsmál hafi verið höfðað vegna fyrrgreinds sakarefnis.
7. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að málsmeðferð fyrir Landsrétti hafi verið stórlega ábótavant eða að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.