Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-95
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Veðskuldabréf
- Kaupsamningur
- Kauptilboð
- Ógilding samnings
- Tómlæti
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 3. júlí 2024 leita Brynjar Örn Gunnarsson og Sigurbjörg Helgadóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 7. júní sama ár í máli nr. 285/2023: Brynjar Örn Gunnarsson og Sigurbjörg Helgadóttir gegn Garðatorgi fasteignum ehf. og Talnabæ ehf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Ágreiningur aðila lýtur að gildi veðsetningar gagnaðilans Garðatorgs fasteigna ehf. á fasteign leyfisbeiðenda að Maríugötu 27 með veðskuldabréfi útgefnu 9. desember 2020 til stefnda Talnabæjar ehf. að fjárhæð 17.000.000 króna.
4. Í dómi héraðsdóms kom fram að leyfisbeiðendur hefðu skrifað sem kaupendur undir kaupsamning við gagnaðila Garðatorg fasteignir ehf. um kaup á fasteigninni Maríugötu 27 þrátt fyrir að vita um veðsetninguna. Þeim hefði jafnframt verið kunnugt um skilyrði þess að veðbandinu yrði aflétt af hálfu gagnaðilans Talnabæjar ehf. Með undirritun sinni hefðu þau því í raun samþykkt veðsetninguna. Í dómi Landsréttar kom fram að af framburði leyfisbeiðandans Brynjars fyrir héraðsdómi yrði að álykta að leyfisbeiðendum hefði verið kunnugt um áhvílandi veðskuldabréf á fasteigninni þegar þau undirrituðu kaupsamning og að þau hefðu með því samþykkt hana. Þá var einnig litið til þess að leyfisbeiðendur sendu gagnaðilanum Garðatorgi fasteignum ehf. bréf 10. febrúar og 20. júní 2022 þar sem þau kröfðust þess að veðskuldabréfinu yrði aflétt. Ekki hefðu verið gerðar athugasemdir við lögmæti veðsetningarinnar fyrr en með héraðsdómsstefnu sem birt var gagnaðilum 30. nóvember 2022. Var tómlæti leyfisbeiðenda einnig talið renna stoðum undir þá niðurstöðu að þau hefðu samþykkt veðsetninguna við undirritun kaupsamnings og niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila staðfest.
5. Leyfisbeiðendur byggja á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem í því reyni á réttarstöðu kaupenda fasteigna og hvaða skilyrði þurfi að uppfylla til að stofna til veðréttar í fasteign. Leyfisbeiðendur telja að í dómi Landsréttar sé komist að þeirri niðurstöðu að eigandi veðandlags geti samþykkt ólögmæta veðsetningu á eign sinni eftir á með athafnaleysi og tómlæti. Í dóminum skorti umfjöllun um það hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til þess að athafnaleysi geti orðið ígildi samnings eða samþykkis fyrir veði í fasteign. Leyfisbeiðendur halda því jafnframt fram að í hinum áfrýjaða dómi séu gerðar kröfur til þekkingar og aðgæsluskyldu þeirra umfram það sem eðlilegt geti talist. Þá byggja leyfisbeiðendur á því að Landsréttur hafi ekki leyst úr sjónarmiðum sem lúti að grandleysi veðhafa um þinglýsingu veðskuldabréfs og ógildingarreglu 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Að lokum telja þau dóm Landsréttar bersýnilega rangan um sjónarmið sem eigi við um stofnun samningsveðs.
6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki litið svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.