Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-28
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Fasteignakaup
- Galli
- Upplýsingaskylda
- Kröfugerð
- Matsgerð
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 13. janúar 2020 leitar María Kristjánsdóttir eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 20. desember 2019 í málinu nr. 95/2019: María Kristjánsdóttir gegn Sigurjónu Sigurbjörnsdóttur, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sigurjóna Sigurbjörnsdóttir tekur ekki afstöðu til beiðninnar.
Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaðabætur vegna galla á fasteign sem hún keypti af gagnaðila 1. júlí 2016. Til vara gerir hún kröfu um afslátt af kaupverðinu. Leyfisbeiðandi telur gallana annars vegar felast í ágöllum á þaki og hins vegar í leka í viðbyggingu. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila á grundvelli þess að fasteignin væri ekki gölluð í skilningi síðari málsliðar 18. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002 enda hafi ágallinn ekki verið talinn rýra verðmæti fasteignarinnar svo nokkru varðaði samkvæmt matsgerð 15. janúar 2018. Landsréttur staðfesti sýknu gagnaðila af kröfu vegna kostnaðar við endurbætur á þaki hússins en taldi á hinn bóginn nægilega í ljós leitt að leki hefði verið til staðar í viðbyggingu áður en fasteignin var afhent leyfisbeiðanda. Gagnaðili hefði ekki upplýst um þennan galla og því ekki sinnt upplýsingaskyldu sinni samkvæmt 26. gr. laga um fasteignakaup nr. 40/2002. Þá var leyfisbeiðandi talinn hafa rennt viðhlítandi stoðum undir kröfu sína um bætur vegna lekans með matsgerðum.
Leyfisbeiðandi byggir á því að fyrrnefndur dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Þannig hafi Landsréttur ekki fjallað um meginmálsástæðu leyfisbeiðanda þar sem dómurinn hafi ekki talið hana rúmast innan dómkröfu hennar. Meginmálsástæða leyfisbeiðanda fyrir Landsrétti hafi lotið að því að stofan í húsinu uppfyllti ekki skilyrði þess að geta verið hluti af aðalrými þess sem væri galli í skilningi 18. gr. laga um fasteignakaup. Þá telur leyfisbeiðandi að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um skýringu á kröfugerð eða takmörkun á málsástæðum með tilliti til kröfugerðar.
Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður hvorki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi til né efni, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.