Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-71

A (Steingrímur Þormóðsson lögmaður)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf., B og dánarbúi C (Ólafur Eiríksson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Bifreið
  • Líkamstjón
  • Skaðabætur
  • Stórkostlegt gáleysi
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 14. febrúar 2019 leitar A eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 1. sama mánaðar í málinu nr. 482/2018: A gegn Vátryggingafélagi Íslands hf., B og dánarbúi C, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Vátryggingafélag Íslands hf., B og dánarbú C leggjast gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um bætur að fjárhæð 4.000.000 krónur vegna líkamstjóns sem hún kveðst hafa orðið fyrir þegar gagnaðilinn B hafi ekið bifreið yfir á öfugan vegarhelming gegn umferð úr gagnstæðri átt og hafnað á bifreið sem leyfisbeiðandi var farþegi í. Ágreiningur aðila lýtur að því hvort gagnaðilinn hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi í skilningi a. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Héraðsdómur og Landsréttur höfnuðu kröfu leyfisbeiðanda þar sem ekkert hafi bent til að það hafi verið meðvituð ákvörðun gagnaðilans B að aka bifreiðinni yfir á rangan vegarhelming eða að hann hafi verið að nota síma við akstur eða teygja sig eftir honum þegar slysið hafi orðið. Þá hafi ökuhraði bifreiðarinnar ekki vikið í þeim mæli frá leyfðum hámarkshraða að talið yrði að gagnaðilinn hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi.

Leyfisbeiðandi telur að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Vísar hún til þess að Landsréttur hafi byggt niðurstöðu sína að öllu leyti á huglægri afstöðu gagnaðilans B, en við mat á því hvort gáleysi teljist stórfellt beri einkum að beita hlutlægum mælikvarða. Dómur Landsréttar sé þannig í andstöðu við fjölmarga dóma Hæstaréttar sem staðfesti að sú háttsemi að aka yfir á öfugan vegarhelming gegn umferð úr gagnstæðri átt teljist stórfellt gáleysi. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði mikilvæga hagsmuni sína og sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að formi og efni til.

Leyfisbeiðandi kærði ekki til Hæstaréttar ákvæði í dómi Landsréttar um að vísa frá héraðsdómi kröfu hennar á hendur dánarbúi C svo sem henni var heimilt samkvæmt a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Kemur því aðeins til skoðunar hvort heimila eigi áfrýjun á dómi Landsréttar vegna krafna leyfisbeiðanda á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. og B, en ekki verður litið svo á ákvæði 1. mgr. 97. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 standi því í vegi að áfrýjun sé einungis beint að þessum aðilum tveimur. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að úrslit þess muni hafa verulegt almennt gildi um skilgreiningu hugtaksins stórfellt gáleysi. Að þessu gættu er beiðni um áfrýjunarleyfi tekin til greina.