Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-182

Hofsstaðaháls ehf., Dreisam ehf., Múlavirkjun hf., Magnús Elíasson, Bergljót Jónsdóttir, Valgerður Jónsdóttir, Einar Steinþór Jónsson, Ingibjörg Fells Elíasdóttir, West ehf., dánarbú Ástu Ingunnar Thors, Hildur Thors og Edda Thors (Guðjón Ármannsson lögmaður)
gegn
Stykkishólmskirkju (Ólafur Björnsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Landamerki
  • Jörð
  • Eignarréttur
  • Hefð
  • Kröfugerð
  • Samlagsaðild
  • Þjóðkirkja
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 22. desember 2024 leita Hofsstaðaháls ehf., Dreisam ehf., Múlavirkjun hf., Magnús Elíasson, Bergljót Jónsdóttir, Valgerður Jónsdóttir, Einar Steinþór Jónsson, Ingibjörg Fells Elíasdóttir, West ehf., dánarbú Ástu Ingunnar Thors, Hildur Thors og Edda Thors leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 28. nóvember sama ár í máli nr. 638/2022: Hofsstaðaháls ehf., Dreisam ehf., Múlavirkjun hf., Magnús Elíasson, Bergljót Jónsdóttir, Valgerður Jónsdóttir, Einar Steinþór Jónsson, Ingibjörg Fells Elíasdóttir, West ehf., dánarbú Ástu Ingunnar Thors, Hildur Thors og Edda Thors gegn Stykkishólmskirkju og Stykkishólmskirkja gegn Hofsstaðahálsi ehf., Dreisam ehf., Múlavirkjun hf., Magnúsi Elíassyni, Bergljótu Jónsdóttur, Valgerði Jónsdóttur, Einari Steinþóri Jónssyni, Ingibjörgu Fells Elíasdóttur, West ehf., dánarbúi Ástu Ingunnar Thors, Hildi Thors og Eddu Thors. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila varðar landamerki jarðarinnar Baulárvalla á Snæfellsnesi gagnvart aðliggjandi jörðum. Aðilar deila einkum um hvort stofnast hafi réttilega til jarðarinnar með útmælingargjörð árið 1823 og hvort réttindi tengd þeirri stofnun hafi fallið niður.

4. Með dómi Landsréttar var fallist á þær kröfulínur sem afmarkaðar voru í kröfugerð gagnaðila til samræmis við afmörkun lands Baulárvalla samkvæmt útmælingargjörð fyrir nýbýli með því nafni frá árinu 1823 og lögfestu Arnfinns Arnfinnssonar frá árinu 1847. Landsréttur taldi að stofnast hefði til nýbýlis í landi Baulárvalla samkvæmt reglum nýbýlatilskipunarinnar 15. apríl 1776 á þeirri forsendu að landið hefði á þeim tíma ekki verið háð beinum eignarrétti annarra. Þá hafnaði Landsréttur því að réttur til nýbýlisins hefði fallið niður vegna notkunarleysis. Ekki var fallist á með leyfisbeiðendum að tilgreind landamerkjabréf aðliggjandi jarða fælu í sér sönnun fyrir eignarrétti þeirra að því landi sem sakarefni málsins tók til. Loks var því hafnað að leyfisbeiðendur hefðu unnið eignarhefð yfir hinu umþrætta landi.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því að niðurstaða Landsréttar sé bersýnilega röng, úrslit málsins varði mikilsverða hagsmuni þeirra og hafi verulegt almennt gildi. Þau vísa til þess að dómkrafa gagnaðila í greinargerð til Landsréttar og héraðsdómsstefnu hafi ekki verið sett fram með hnitum. Hnitsettar kröfulínur hafi fyrst komið fram skömmu fyrir munnlegan málflutning í Landsrétti og gagnaðili ekki bætt úr framsetningu dómkrafna sinna í samræmi við ábendingar í dómi Hæstaréttar 19. júní 2024 í máli nr. 24/2024. Leyfisbeiðendur telja meðal annars að málið hafi ríkt fordæmisgildi um sönnun eignarréttar að landi í þeim tilvikum þegar þinglýst landamerkjabréf beri ekki saman við útmælingu á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar. Auk þess gangi niðurstaða Landsréttar þvert á dómafordæmi Hæstaréttar og standist ekki sjónarmið um réttmætar væntingar og hefð. Þá vísa þau til þess að vatnsaflsvirkjun sé rekin á svæðinu og umfang undirliggjandi hagsmuna því talsvert.

6. Að virtum gögnum málsins verður hvorki talið að fullnægt sé þeim skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðenda í skilningi ákvæðisins. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.