Hæstiréttur íslands
Nr. 2022-135
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Ábyrgðartrygging
- Vátrygging
- Bifreið
- Umferðarlög
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Ingveldur Einarsdóttir.
2. Með beiðni 17. nóvember 2022 leita Sjóvá-Almennar tryggingar hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 21. október sama ár í máli nr. 405/2021: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. gegn ríkislögreglustjóra á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggur í mat Hæstaréttar hvort orðið skuli við beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um viðurkenningu á fullri og óskiptri bótaskyldu leyfisbeiðanda úr ábyrgðartryggingu bifreiðar vegna tjóns á tveimur lögreglubifreiðum í kjölfar árekstrar 13. júní 2018. Tjónið á lögreglubifreiðunum varð í kjölfar þess að þær veittu bifreið eftirför eftir að ökumaður hennar sinnti ekki ítrekuðum fyrirmælum lögreglu um að stöðva hana.
4. Héraðsdómur féllst á framangreinda kröfu gagnaðila um viðurkenningu á bótaskyldu og staðfesti Landsréttur þá niðurstöðu. Í dómi Landsréttar var meðal annars rakið að um hefði verið að ræða árekstur skráningarskyldra vélknúinna ökutækja í skilningi 89. gr. þágildandi umferðarlaga nr. 50/1987. Vátrygging samkvæmt 1. mgr. 91. gr. sömu laga hefði tekið til hvers kyns skaðabótakrafna samkvæmt 89. gr. laganna, enda þótt sök ökumanns, sem væri grundvöllur bótaábyrgðar eftir 89. gr., tengdist ekki notkun í skilningi 1. mgr. 88. gr. laganna. Ekki færi á milli mála að tjónið hefði orðið vegna notkunar þeirrar bifreiðar sem tryggð var hjá leyfisbeiðanda. Niðurstaða málsins réðist þar með af því hvernig tjóninu skyldi skipt samkvæmt fyrrgreindu ákvæði 89. gr. Með vísan til forsendna héraðsdóms var niðurstaða hans um það efni staðfest.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Því til stuðnings vísar hann meðal annars til þess að atvik af þessu tagi geti komið upp og því sé mikilvægt að Hæstiréttur skeri úr um þann vafa sem ríkir um ágreiningsefnið. Þá reisir hann beiðni sína á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, meðal annars að því er varðar sakarmat sem sé ekki í samræmi við hefðbundna túlkun á sök ökumanna í þeim tilvikum er árekstur verður. Jafnframt hafi rétturinn ekki tekið tillit til þess við sakarmatið að um tvo aðskilda árekstra hafi verið að ræða. Enn fremur sé varðandi síðari áreksturinn bersýnilega rangt að leggja sök á árekstri á ökumann kyrrstæðrar bifreiðar sem ekið er aftan á. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að úrslit málsins varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína.
6. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðninni er því hafnað.