Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-87
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lánssamningur
- Gengistrygging
- Fyrning
- Brostnar forsendur
- Ógilding samnings
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 17. mars 2020 leitar Hreggviður Þorsteinsson eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. sama mánaðar í málinu nr. 324/2019: Arion banki hf. gegn Hreggviði Þorsteinssyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Arion banki hf. leggst gegn beiðninni.
Málið höfðaði gagnaðili til heimtu skuldar samkvæmt samningi aðila frá desember 2006 um „fjölmyntareikningslán“ að jafnvirði 25.000.000 króna. Með dómi héraðsdóms var leyfisbeiðandi sýknaður á þeim grunni að um væri að ræða kröfu sem hefði stofnast vegna sölu á tilgreindum stofnfjárbréfum og lánið hefði verið veitt til fjármögnunar á þeim kaupum með greiðslufresti. Fyrningarfrestur kröfunnar væri því 4 ár samkvæmt 1. tölulið 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda og krafan verið fyrnd þegar málið var höfðað. Landsréttur taldi á hinn bóginn að komist hefði á lánssamningur þar sem kveðið hefði verið á um gilda skuldbindingu í erlendum gjaldmiðli. Lánsfjárhæðin hefði verið til reiðu fyrir leyfisbeiðanda og henni ráðstafað til kaupa á umræddum stofnfjárbréfum. Fyrningarfrestur kröfunnar væri 10 ár samkvæmt 2. tölulið 4. gr. laganna og hún því ófyrnd við málshöfðun. Loks var því hafnað að aðildarskortur, ákvæði 31. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða reglur um brostnar forsendur gætu leitt til sýknu og fallist á kröfu gagnaðila.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem skera þurfi úr um stofnun og eðli umræddrar kröfu sem hafi áhrif á fyrningarfrest hennar. Bendir hann á að fjárhæðin sem samningur aðila kveður á um hafi hvorki verið lögð inn á bankareikning hans né afhent honum. Þá hafi málið fordæmisgildi um þær kröfur sem gera megi til fjármálafyrirtækja um að þau tryggi sér skýrar og ótvíræðar sannanir fyrir tilvist réttinda sinna, umfangi þeirra og heimildir að öðru leyti. Leyfisbeiðandi telur jafnframt að dómur Hæstaréttar 28. maí 2014 í máli nr. 26/2014, sem Landsréttur vísaði til í dómi sínum, geti ekki haft fordæmisgildi í málinu. Af þeim sökum kunni dómur Landsréttar að vera rangur að efni til. Loks varði málið sérstaklega mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram það sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.