Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-154

FF 11 ehf. (Ólafur Eiríksson lögmaður)
gegn
Heimum atvinnuhúsnæði ehf. og Miðhrauni 4, húsfélagi (Fjölnir Ólafsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteign
  • Aðild
  • Eignaskiptayfirlýsing
  • Brunatrygging
  • Fyrning
  • Tómlæti
  • Skuldajafnaðarkrafa
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 5. nóvember 2025 leitar FF 11 ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 9. október sama ár í máli nr. 607/2024: Miðhraun 4, húsfélag, gegn FF 11 ehf. og FF 11 ehf. gegn Heimum atvinnuhúsnæði ehf. og Miðhrauni 4, húsfélagi, og Heimar atvinnuhúsnæði ehf. gegn FF 11 ehf. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Í málinu er einkum deilt um skiptingu kostnaðar vegna endurbyggingar fasteignar í kjölfar eldsvoða. Aðilar deila nánar tiltekið um hvort miða eigi skiptingu kostnaðar vegna endurbyggingar sameignar við hlutfallstölur hvors eignarhluta um sig samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu fasteignarinnar, sbr. ákvæði laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús eða við hlutfall hvors um sig í samanlögðu brunabótamati eignarinnar samkvæmt lögum nr. 48/1994 um brunatryggingar.

4. Með héraðsdómi var lagt til grundvallar að skipta bæri kostnaði vegna endurbyggingar sameignar með vísan til hlutfalls hvors eignarhluta um sig samkvæmt eignaskiptayfirlýsingu. Var gagnaðilum því gert að greiða leyfisbeiðanda nánar tilgreinda fjárhæð. Landsréttur taldi hins vegar rétt að miða skiptingu kostnaðar við hlutfall brunabótamats eignarhluta hvors aðila í heildareigninni og sýknaði því gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að málið hafi verulegt almennt gildi um hvernig skipta beri kostnaði af endurbyggingu sameignar í kjölfar brunatjóns. Úrlausn þess hafi fordæmisgildi fyrir alla eigendur fjöleignarhúsa og réttarstöðu þeirra ef til slíks tjóns kemur. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Í þeim efnum vísar hann einkum til þess að leggja beri kostnaðarskiptingu samkvæmt lögum nr. 26/1994 til grundvallar. Í öllu falli sé bersýnilega rangt að skipta kostnaði vegna sameignar eftir fjárhæð brunabóta fyrir bæði séreign og sameign en ekki aðeins sameignarhluta brunabóta hvors eignarhluta um sig.

6. Að virtum gögnum málsins verður litið svo á að dómur í því kunni að hafa verulegt almennt gildi um þau atriði sem leyfisbeiðandi byggir á þannig að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.