Hæstiréttur íslands

Nr. 2024-109

A (Daníel Isebarn Ágústsson lögmaður)
gegn
Vátryggingafélagi Íslands hf. og Heklu hf. (Heiðar Örn Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Skaðabótaábyrgð
  • Viðurkenningarkrafa
  • Líkamstjón
  • Kröfugerð
  • Lögvarðir hagsmunir
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 19. júlí 2024 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 21. júní sama ár í máli nr. 160/2023: Vátryggingafélag Íslands hf. og Hekla hf. gegn A. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu gagnaðila vegna líkamstjóns. Leyfisbeiðandi varð fyrir slysi þegar hann fékk í höfuðið hliðslá sem gegndi því hlutverki að takmarka umferð ökutækja að þjónustuverkstæði og bílastæðum við fasteign gagnaðila Heklu hf. Félagið hafði á slysdegi ábyrgðartryggingu hjá gagnaðila Vátryggingafélagi Íslands hf.

4. Með héraðsdómi var fallist á kröfu leyfisbeiðanda um viðurkenningu á bótaskyldu gagnaðila vegna líkamstjóns sem hlaust af slysinu. Með dómi Landsréttar voru gagnaðilar sýknaðir af kröfu leyfisbeiðanda. Landsréttur vísaði meðal annars til þess að upplýst væri að hliðið væri með CE-vottun en í henni fælist að framleiðandi vöru ábyrgðist að hún uppfyllti þær grunnkröfur um öryggi og almennt heilbrigði sem tilskipanir Evrópusambandsins kvæðu á um. Þá féllst Landsréttur hvorki á að hliðið hefði verið vanbúið né að á gagnaðila Heklu hf. hefði hvílt skylda til að búa það frekari öryggisbúnaði. Yrði ekki séð að uppsetning viðvörunarskilta, líkt og gagnaðili Hekla hf. hefði sett upp eftir slysið, hefðu aukið öryggi hliðsins sem nokkru næmi. Ekki lægu fyrir gögn sem bentu til þess að hliðið hefði verið bilað eða gæfu ástæðu til að ætla að ranglega hefði verið staðið að uppsetningu þess. Jafnframt lægi ekkert fyrir um að viðhaldi hefði verið ábótavant. Það var því ekki metið gagnaðila Heklu hf. til sakar að hafa hliðið í notkun á lóð sinni. Við mat á því hvort Hekla hf. hefði, með því að hafa hliðið í notkun við þær aðstæður sem voru á lóðinni, sýnt af sér saknæma og ólögmæta háttsemi vísaði Landsréttur meðal annars til þess að þó svo umferð gangandi vegfarenda hefði ekki verið bönnuð og búast hefði mátt við einhverri slíkri umferð yrði af gögnum málsins ekki ráðið að fótgangandi viðskiptavinum hefði verið beint að þeirri leið sem leyfisbeiðandi kaus að ganga. Þá hefði leyfisbeiðandi hvorki sýnt fram á að aðstæður á lóðinni hefðu farið í bága við ákvæði laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum né aðrar reglur eða viðmið. Var leyfisbeiðanda ekki talið hafa tekist sönnun þess að slys það sem hann varð fyrir hefði mátt rekja til saknæmrar og ólögmætrar háttsemi gagnaðila Heklu hf. eða starfsmanna félagsins, heldur lagt til grundvallar að um óhappatilvik hefði verið að ræða.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi. Annars vegar um skilyrði 2. mgr. 25. gr. og e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og hins vegar um ábyrgð fyrirtækja á aðbúnaði fasteignar og öryggisráðstafanir vegna hættulegs búnaðar. Leyfisbeiðandi vísar til þess að dómur Landsréttar feli í sér töluvert minni kröfur til fyrirtækja en dómstólar hafi áður gert. Ekki séu fordæmi fyrir því í dómaframkvæmd að fyrirtæki geti sleppt því að gera fullnægjandi öryggisráðstafanir með óljósri og óstaðfestri fullyrðingu um að það sé ekki í samræmi við hönnun búnaðar að hafa tilteknar öryggisráðstafanir. Að sama skapi séu ekki kunn fordæmi þess að CE-merkingu hafi verið gefið álíka vægi og gert sé í dómi Landsréttar. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni sína. Loks telur hann dóm Landsréttar vera bersýnilega rangan.

6. Að virtum gögnum málsins verður talið að úrslit þess geti haft verulegt almennt gildi um efnisatriði þess. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.