Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-304

Þríforkur ehf. (Styrmir Gunnarsson lögmaður)
gegn
Sjóvá-Almennum tryggingum hf. (Kristín Edwald lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Vátryggingarsamningur
  • Stórkostlegt gáleysi
  • Virðisaukaskattur
  • Samþykkt að hluta

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 3. desember 2021 leitar Þríforkur ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 12. nóvember sama ár í máli nr. 384/2020: Þríforkur ehf. gegn Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og gagnsök á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu úr brunatryggingu vegna tjóns sem varð 31. maí 2017 þegar húsnæði í eigu hans brann. Ágreiningur aðila lýtur annars vegar að því hvort og að hvaða marki gagnaðila sé heimilt að skerða bætur til leyfisbeiðanda á grundvelli 26. og 27. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga þar sem brunavörnum í húsinu hafi verið ábótavant. Hins vegar greinir aðila á um hvort bætur til leyfisbeiðanda skuli sæta lækkun sem nemi lögbundnum afreikningi vegna virðisaukaskatts með vísan til vátryggingarsamnings aðila.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að gagnaðila væri skylt að greiða leyfisbeiðanda vátryggingarbætur vegna brunatjóns 31. maí 2017 hlutfallslega í samræmi við framvindu endurbyggingar fasteignarinnar. Í dóminum var meðal annars byggt á því að brunavörnum í húsinu hafi verið stórlega áfátt, sérstaklega með tilliti til þeirrar starfsemi sem þar fór fram og aðstæðna að öðru leyti. Þannig var fallist á að leyfisbeiðandi hefði af stórfelldu gáleysi brotið gegn varúðarreglum sem lutu að brunavörnum og fram komu í skilmálum fyrir brunatryggingu húseigna sem aðilar voru sammála um að hafi gilt um vátryggingu húsnæðisins. Þar sem leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á hið gagnstæða lagði Landsréttur til grundvallar að uppfyllt væri skilyrði 26. gr. laga nr. 30/2004 um að orsakatengsl hefðu verið milli saknæms brots á varúðarreglu og vátryggingaratburðar. Með vísan til 26. gr. laga nr. 30/2004 voru bætur leyfisbeiðanda úr hendi gagnaðila skertar um 25%. Þá taldi rétturinn að bætur til leyfisbeiðanda skyldu sæta lækkun sem næmi lögbundnum afreikningi vegna virðisaukaskatts.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé rangur að efni til. Í þeim efnum vísar hann meðal annars til þess að leyfisbeiðandi hafi ekki sýnt af sér stórkostlegt gáleysi þar sem unnið hafi verið að uppsetningu brunakerfis í fasteigninni þegar tjónið varð. Þá telur leyfisbeiðandi að engin orsakatengsl séu milli skorts á brunavörnum og umfangs tjóns auk þess sem skerðingarmat Landsréttar hafi ekki samrýmst fyrirmælum 26. og 27. gr. laga nr. 30/2004. Enn fremur telur hann dóm Landsréttar um lækkun bóta vegna afreiknings virðisaukaskatts vera í andstöðu við dóm Hæstaréttar 23. mars 2000 í máli nr. 490/1999 auk þess sem ákvæði þess efnis í vátryggingarsamningi aðila sé ósanngjarnt í skilningi 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi og varði mikilvæga hagsmuni sína.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess um skýringu 26. og 27. gr. laga nr. 30/2004 geti haft verulegt almennt gildi, þau varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda eða dómurinn sé að því leyti bersýnilega rangur í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Á hinn bóginn verður talið að úrlausn um þann þátt málsins sem lýtur að lækkun vátryggingarbóta sem byggist á lögbundnum afreikningi vegna virðisaukaskatts geti haft fordæmisgildi. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt að því er þetta atriði málsins varðar.