Hæstiréttur íslands
Nr. 2024-130
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Skattur
- Skattlagning
- Skattskylda
- Vinnusamningur
- Verksamningur
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Sigurður Tómas Magnússon, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 23. október 2024 leitar 115 Security ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 26. september sama ár í máli nr. 255/2023: 115 Security ehf. gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.
3. Mál þetta lýtur að úrskurði yfirskattanefndar 4. júní 2021, sem staðfesti úrskurð ríkisskattstjóra 30. janúar 2020, um endurákvörðun á tryggingagjaldi og virðisaukaskatti og um að líta bæri á greiðslur leyfisbeiðanda til fimm nafngreindra félaga árunum 2011 til 2014 sem launagreiðslur en ekki sem greiðslur fyrir aðkeypta þjónustu.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Í dómi Landsréttar kom fram að þegar skorið væri úr því álitaefni hvort tiltekinn gerningur væri vinnusamningur eða verksamningur væri skattyfirvöldum heimilt að meta hvort starfssamband skattaðila væri í raun með þeim hætti sem haldið væri fram af þeirra hálfu. Við það mat réði ekki úrslitum hvað viðkomandi samningur væri kallaður heldur yrði að líta til allra aðstæðna í samskiptum þess sem innir vinnu eða þjónustu af hendi og þess sem starfað er fyrir. Með vísan til umfjöllunar í héraðsdómi var niðurstaða hans staðfest um að réttilega hefði verið lagt til grundvallar í úrskurði yfirskattanefndar að um vinnusamband en ekki verktakasamband hefði verið að ræða milli leyfisbeiðanda og þeirra starfsmanna sem inntu öryggisþjónustu af hendi í þágu hans. Þá var talið rétt að miða við að allar greiðslur til þeirra félaga sem voru beinir viðsemjendur leyfisbeiðanda teldust launagreiðslur en til lækkunar hefði þó verið tekið tillit til staðgreiðslu sem sum félaganna höfðu skilað af launum starfsmanna. Var því ekki talið að óheimilt hefði verið að kveða á um hækkun tryggingagjalds og lækkun innskatts í samræmi við áætlaðan gjaldstofn. Loks féllst Landsréttur ekki á með leyfisbeiðanda að við meðferð málsins hjá skattyfirvöldum hefði verið brotið gegn ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eða að úrskurðirnir færu í bága við ákvæði 40. og 77. gr. stjórnarskrár og væru haldnir öðrum annmörkum sem ættu að leiða til ógildingar þeirra.
5. Leyfisbeiðandi vísar til þess að úrlausn málsins hafi verulegt almennt gildi um valdheimildir skattyfirvalda en með hinum umdeildu úrskurðum hafi þau seilst langt út fyrir dómafordæmi sem þau í orði kveðnu hafi byggt á. Telur leyfisbeiðandi brýnt að Hæstiréttur taki skýra afstöðu til eðlis, inntaks og takmarkana á heimildum skattyfirvalda til sjálfstæðs mats á gerningum skattaðila og til beitingar dómafordæma sem réttarheimildar í skattarétti enda um að ræða réttarsvið undirselt ströngum lagaáskilnaðarkröfum samkvæmt 40. og 77. gr. stjórnarskrár. Í dómum Hæstaréttar sem yfirskattanefnd hafi vísað til hafi í öllum tilfellum verkkaupi verið endurskilgreindur sem launagreiðandi og verksali sem launþegi og um að ræða beint samningssamband milli aðila. Í máli leyfisbeiðanda séu aðstæður þannig að leyfisbeiðandi og undirverktakar séu ótengd fyrirtæki í skattalegum skilningi og leyfisbeiðandi viti lítil deili á starfsmönnum undirverktakanna. Engin gögn liggi fyrir um hverjir þessir starfsmenn hafi verið. Undirverktakarnir hafi verið skráðir launagreiðendur hjá ríkisskattstjóra en leyfisbeiðandi látinn bera ábyrgð á vanskilum þeirra. Hann telur sig hafa verið látinn sæta keðjuábyrgð á skattgreiðslum ótengdra aðila án lagaheimildar. Dómur Landsréttar sé því bersýnilega rangur að formi og efni til.
6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi eða varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki talið að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.