Hæstiréttur íslands
Nr. 2025-121
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Húsbrot
- Eignaspjöll
- Fíkniefnalagabrot
- Líkamsárás
- Þjófnaður
- Tilraun
- Neyðarréttur
- Dráttur á máli
- Refsiákvörðun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.
2. Með beiðni 3. júlí 2025 leitar Baldur Kolbeinsson leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 12. júní 2025 í máli nr. 709/2023: Ákæruvaldið gegn Baldri Kolbeinssyni. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.
3. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um sakfellingu leyfisbeiðanda í samræmi við játningu hans fyrir tvö fíkniefnalagabrot og nokkur brot gegn almennum hegningarlögum nr. 19/1940. Leyfisbeiðanda var einnig gefið að sök húsbrot með því að hafa í þrjú skipti farið í heimildarleysi inn í tilgreind fjölbýlishús en hann bar því við að hann hefði leitað í þessi húsnæði vegna kulda, auk þess sem hann hafi verið slasaður og í slæmu ástandi. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að ekki yrði séð að leyfisbeiðandi hefði verið í yfirvofandi hættu sem hefði verið bægt frá með þessari háttsemi. Önnur úrræði hefðu staðið honum til boða og aðstæður hans ekki réttlætt að hann færi inn í húsnæði annarra til að leita sér skjóls. Var því ekki fallist á að háttsemin hefði verið leyfisbeiðanda refsilaus með vísan til 13. gr. almennra hegningarlaga og hann því sakfelldur fyrir hana. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að leyfisbeiðandi skyldi sæta fangelsi í 12 mánuði. Í dómi Landsréttar kom fram að í ljósi dráttar á meðferð málsins fyrir Landsrétti, sem leyfisbeiðanda yrði ekki kennt um, kæmi ekki til álita að þyngja refsingu hans. Þá var með hliðsjón af sakaferli leyfisbeiðanda og fjölda þeirra brota sem hann var sakfelldur fyrir ekki talið unnt að binda refsingu hans skilorði.
4. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur efnislega þar sem sekt hans hafi ekki verið sönnuð. Byggir hann á því að sú háttsemi sem hann var sakfelldur fyrir, það er húsbrot, hafi verið refsilaus á grundvelli neyðarréttar samkvæmt 13. gr. almennra hegningarlaga. Mjög kalt hafi verið í veðri dagana sem atvik áttu sér stað og þá hafi hann einnig verið líkamlega skaðaður og í slæmu og hættulegu ástandi. Hafi hann þannig verið að vernda meiri hagsmuni fyrir minni, það er eigið líf og heilsu, andstætt húsnæði annarra. Þá hafi vegna tafa á málinu verið tilefni til að milda refsingu og skilorðsbinda að fullu enda verði honum ekki kennt um þær tafir. Leyfisbeiðandi byggir jafnframt á því að málið hafi verulega almenna þýðingu varðandi 1. og 2. mgr. 53. gr. og 1. mgr. 54. gr. laga nr. 88/2008. Málið varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda og þau grundvallarréttindi hans að vera ekki saklaus dæmdur sekur.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að það lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.