Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-63

Ákæruvaldið (Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari)
gegn
Dagbjörtu Guðrúnu Rúnarsdóttur (Arnar Kormákur Friðriksson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Manndráp
  • Ákæra
  • Heimfærsla
  • Ásetningur
  • Matsgerð
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ása Ólafsdóttir, Björg Thorarensen og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 12. mars 2025 leitar Dagbjört Guðrún Rúnarsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 20. febrúar sama ár í máli nr. 669/2024: Ákæruvaldið gegn Dagbjörtu Guðrúnu Rúnarsdóttur. Ákæruvaldið leggst gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi var ákærð fyrir manndráp með því að hafa svipt brotaþola lífi með margþættu ofbeldi í aðdraganda andláts hans í tvo daga með nánar tilgreindum hætti með þeim afleiðingum að brotaþoli hlaut af margvíslega áverka á höfði og líkama. Í framhaldsákærum sagði að brotaþoli hefði látist af völdum köfnunar vegna ytri kraftverkunar á háls og efri öndunarveg en blæðing innvortis og fitublóðrek vegna áverka á beinum og mjúkvef, hefðu átt sinn skerf í spillandi áhrifum á súrefnisnæringu til heilans og verið þannig til þess fallin að stuðla enn frekar að framvindu köfnunarferlisins.

4. Með héraðsdómi var háttsemi leyfisbeiðanda heimfærð til 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og refsing hennar ákveðin fangelsi í 10 ár. Með dómi Landsréttar var leyfisbeiðandi sakfelld fyrir manndráp samkvæmt 211. gr. laganna og hún dæmd til að sæta 16 ára fangelsi. Landsréttur féllst hvorki á að slíkir annmarkar væru á ákæru að leitt gætu til frávísunar án kröfu eða eftir atvikum sýknu leyfisbeiðanda né að slíkir annmarkar væru á dómi héraðsdóms að hann yrði ómerktur án kröfu. Landsréttur komst að þeirri niðurstöðu að hafið væri yfir skynsamlegan vafa að dánarorsök brotaþola hefði verið köfnun vegna ytri kraftverkunar á háls og efri öndunarveg. Var háttsemi leyfisbeiðanda heimfærð til 211. gr. almennra hegningarlaga enda yrði ráðið af gögnum málsins að um stórhættulega atlögu hefði verið að ræða sem henni hefði ekki getað dulist að langlíklegast væri að bani hlytist af. Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að ákvæði 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga hefðu ekki þýðingu fyrir niðurstöðu málsins.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur og áfrýjun lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu. Vísar hún meðal annars til þess að óskýrleiki verknaðarlýsingar hafi átt að leiða til þess að málinu yrði vísað frá dómi eða í öllu falli að Landsrétti hafi ekki verið stætt að sakfella fyrir manndráp á grundvelli þeirrar óljósu lýsingar að leyfisbeiðandi hafi beitt brotaþola „margþættu ofbeldi“ og dánarorsök verið „köfnun vegna ytri kraftverkunar á hálsinn og efri öndunarveginn“. Leyfisbeiðandi byggir á því að Landsréttur virðist í dómi sínum eingöngu byggja á forsendum útvíkkaðrar réttarkrufningar um öll vafaatriði málsins og niðurstöðum dómkvadds manns þannig vikið til hliðar. Dómur Landsréttar sé því bersýnilega rangur að formi og efni til hvað varði sönnunargildi matsgerðar. Auk þess hafi verulega almenna þýðingu að fá úrlausn Hæstaréttar um sönnunarmat í málum þar sem reyni á vægi sérfræðiskýrslna sem aflað hafi verið einhliða af lögreglu gagnvart matsgerð dómkvaddra manna sem ákæruvaldið hafi ekki leitast eftir að fá hrundið með yfirmati. Loks telur leyfisbeiðandi dóm Landsréttar vera bersýnilega rangan að efni til hvað varðar mat á ásetningi hennar og heimfærslu brotsins. Að mati leyfisbeiðanda sé mikilvægt að fá úrlausn Hæstaréttar um mörk 211. gr. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Varði heimfærsla brotsins leyfisbeiðanda miklu enda hafi fangelsisrefsing hennar verið þyngd um 6 ár milli dómstiga.

6. Að virtum gögnum málsins verður að telja að úrlausn þess, meðal annars um heimfærslu háttsemi leyfisbeiðanda til refsiákvæða, kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Er þá jafnframt haft í huga að leyfisbeiðandi var sakfelld fyrir manndráp í Landsrétti en hafði í héraði verið sakfelld fyrir stórfellda líkamsárás sem leiddi til dauða. Beiðnin er því samþykkt.