Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-79

Haraldur Róbert Magnússon og Hrafnhildur Björnsdóttir (Valgeir Kristinsson lögmaður)
gegn
Guðrúnu Soffíu Guðmundsdóttur (Bjarki Þór Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Fasteignakaup
  • Galli
  • Fjöleignarhús
  • Sameign
  • Áfrýjunarfjárhæð
  • Frávísun frá Landsrétti
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson.

Með beiðni 6. mars 2020 leita Haraldur Róbert Magnússon og Hrafnhildur Björnsdóttir leyfis Hæstaréttar til að kæra dóm Landsréttar 21. febrúar sama ár í málinu nr. 480/2019: Haraldur Róbert Magnússon og Hrafnhildur Björnsdóttir gegn Guðrúnu Soffíu Guðmundsdóttur, á grundvelli 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Guðrún Soffía Guðmundsdóttir leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðenda um skaðabætur vegna meints galla á fasteign sem þau keyptu af gagnaðila árið 2014. Í forsendum héraðsdóms var komist að þeirri niðurstöðu að vísa bæri þremur af fjórum liðum fjárkröfunnar frá dómi þar sem þeir lytu að sameign fjöleignarhúss og ekki hefði verið upplýst um hvernig eignarhlutföllin í sameigninni skiptust. Í dómsorði héraðsdóms var kröfu leyfisbeiðenda um heimild til skuldajöfnunar á móti eftirstöðvum kaupverðs vísað sjálfkrafa frá dómi og gagnaðili sýknuð af öðrum kröfum leyfisbeiðenda. Þar var hinsvegar ekki kveðið á um frávísun fyrrnefndra þriggja kröfuliða. Landsréttur taldi að þótt frávísunar fyrrgreindra kröfuliða hefði ekki verið getið í dómsorði, eins og rétt hefði verið samkvæmt 2. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991, yrði að leggja til grundvallar að héraðsdómur hefði vísað þeim frá dómi, sbr. dóm Hæstaréttar 17. desember 2015 í máli nr. 287/2015. Vísaði Landsréttur til þess að málatilbúnaður leyfisbeiðenda bæri og með sér að þetta hefði ekki misskilist. Í dóminum var tekið fram að þar sem ákvæði um frávísun hefðu ekki verið kærð eftir reglum XXIV. kafla laga nr. 91/1991 gætu umræddar kröfur ekki komið til álita fyrir Landsrétti. Þar sem eftirstandandi krafa náði ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991 var málinu vísað frá Landsrétti.

Leyfisbeiðendur byggja á því að öll skilyrði 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 séu uppfyllt en vísa jafnframt til a. liðar 1. mgr. ákvæðisins. Telja þeir kæruefnið varða mikilsverða almannahagsmuni þar sem skera þurfi úr um hverjir séu möguleikar einstakra eigenda í fjöleignarhúsi til að reka skaðabótamál vegna fasteignagalla gegn seljanda. Þá hafi þeim borið að áfrýja dómi héraðsdóms til Landsréttar í ljósi skýrrar niðurstöðu dómsins um að sýkna gagnaðila af öllum efniskröfum en ekki kæra ákvæði í forsendum dómsins um frávísun tilgreindra kröfuliða. Kæruefnið hafi því fordæmisgildi og grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins. Loks sé hin kærða dómsathöfn bersýnilega röng að formi til og efni.

Samkvæmt a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er heimilt án leyfis að kæra til Hæstaréttar dómsathafnir Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti en ekki þegar um er að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms. Getur dómsathöfn Landsréttar samkvæmt þessu sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefur verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá dómi sem ekki hefur fyrr verið gert. Á hinn bóginn sætir dómur Landsréttar um frávísun máls, þegar krafa leyfisbeiðanda nær ekki áfrýjunarfjárhæð samkvæmt 1. mgr. 152. gr. laga nr. 91/1991, ekki kæru til Hæstaréttar.

 Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar í kærumálum þegar svo er mælt fyrir í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 91/1991 né öðrum lögum mælt fyrir um heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra dóm Landsréttar um það efni sem hér um ræðir. Er beiðninni því hafnað.