Hæstiréttur íslands

Nr. 2019-208

Byggingarsamvinnufélag eldri borgara í Garðabæ (Helgi Jóhannesson lögmaður)
gegn
Verktaka nr. 16 ehf. (Jóhannes Karl Sveinsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Byggingarstjóri
  • Verksamningur
  • Tómlæti
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.

Með beiðni 14. júní 2019 leitar Byggingarsamvinnufélag eldri borgara í Garðabæ eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 31. maí sama ár í málinu nr. 819/2018: Verktaki nr. 16 ehf. gegn Byggingarsamvinnufélagi eldri borgara í Garðabæ, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verktaki nr. 16 ehf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu gagnaðila um greiðslu á reikningum að fjárhæð samtals 14.488.750 krónur fyrir störf byggingarstjóra við smíði tilgreindra íbúðarhúsa í eigu leyfisbeiðanda við Unnargrund í Garðabæ. Deila aðilarnir um hvort ráðningar- eða verksamningur um þessi störf hafi komist á milli þeirra í samræmi við 2. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 um mannvirki. Héraðsdómur sýknaði leyfisbeiðanda af kröfu gagnaðila með þeim rökum að tiltekin umboð leyfisbeiðanda til gagnaðila og tilkynning leyfisbeiðanda til byggingarfulltrúa um að gagnaðili tæki að sér störf byggingarstjóra við smíði húsanna yrðu ekki túlkuð sem skriflegir ráðningar- eða verksamningar um byggingarstjórn í skilningi lagaákvæðisins. Þá var ekki fallist á með gagnaðila að leyfisbeiðandi hafi bréflega viðurkennt greiðsluskyldu sína. Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og vísaði til þess að þrátt fyrir að ekki hafi verið gerður skriflegur ráðningar- eða verksamningur í samræmi við 2. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010 hafi leyfisbeiðandi í verki samþykkt gagnaðila sem byggingarstjóra og með því tekið á sig skyldur sem því fylgdu. Með vísan til meginreglu 45. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup var krafa gagnaðila því tekin til greina.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrlausn málsins hafi fordæmisgildi og varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni sína. Vísar hann meðal annars til þess að fyrir Hæstarétti hafi ekki áður reynt á skýringu 2. mgr. 27. gr. laga nr. 160/2010. Þá telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur meðal annars sökum þess að þar hafi ekki verið tekin afstaða til málsástæðu hans um tómlæti gagnaðila.

Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í máli þessu myndi hafa fordæmisgildi um framangreind atriði. Er því beiðni um áfrýjunarleyfi tekin til greina.