Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-117

A (Þórir Júlíusson lögmaður)
gegn
Almenna lífeyrissjóðnum (Helgi Pétur Magnússon lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Óvígð sambúð
  • Lífeyrissjóður
  • Lífeyrisréttur
  • Erfðaréttur
  • Erfðaskrá
  • Samþykkt

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Skúli Magnússon.

2. Með beiðni 27. júní 2025 leitar A leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja beint til Hæstaréttar dómi Héraðsdóms Reykjaness 6. sama mánaðar í máli nr. E-1066/2024: A gegn Almenna lífeyrissjóðnum. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Í málinu krefst leyfisbeiðandi þess að viðurkennt verði að hún sem bréferfingi eigi rétt til þriðjungshlutar í innstæðu séreignalífeyrissparnaðar sem sambúðarmaki hennar átti hjá gagnaðila við andlát sitt.

4. Héraðsdómur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Byggðist sú niðurstaða á því að samkvæmt 4. mgr. 11. gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda skyldi innstæða séreignalífeyrissparnaðar skiptast milli skylduerfingja, það er eiginmanns eða eiginkonu og barna hins látna en ekki bréferfingja.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi fordæmisgildi um skýringu laga nr. 129/1997, einkum 11. gr. þeirra. Ekki hafi áður verið leyst úr því hvort sambúðarmaki sem sé bréferfingi geti átt rétt til innstæðu séreignalífeyrissparnaðar samhliða skylduerfingjum. Þá telur leyfisbeiðandi að forsendur héraðsdóms séu í verulegu ósamræmi við bæði orðalag ákvæðisins og athugasemdir við það í greinargerð með frumvarpi því er varð að lögum nr. 129/1997. Ekkert í ákvæðinu eða lögskýringargögnum gefi til kynna að túlka beri hugtakið „erfingi“ svo að það taki eingöngu til skylduerfingja.

6. Að virtum gögnum málsins verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi. Þá eru ekki fyrir hendi þær aðstæður sem komið geta í veg fyrir að leyfi til áfrýjunar beint til Hæstaréttar verði veitt á grundvelli 1. mgr. 175. gr. laga nr. 91/1991. Beiðni leyfisbeiðenda um leyfi til áfrýjunar héraðsdóms til Hæstaréttar er því samþykkt.