Hæstiréttur íslands

Nr. 2025-126

Borgarbraut 57-59, húsfélag, Þórunn Elíasdóttir, Ágúst M. Haraldsson, María Guðmundsdóttir, Lilja Jóhannsdóttir, Guðmundur Þorgilsson, Jóhannes Magnús Þórðarson, Guðjón Gíslason, Ingibjörg Haraldsdóttir, Steinunn Guðrún Guðjónsdóttir, Páll Lind Egilsson, Ingvi Árnason, Snjólaug Guðmundsdóttir, Guðbrandur Brynjúlfsson, Sigurður Þorsteinsson, Steinunn Pálsdóttir, Guðmundur Eyþórsson, Ingibjörg Vigfúsdóttir, Guðlaug Örlaugsdóttir, Hanna Sigríður Kjartansdóttir, Anders Larsen, Ólöf Brynjúlfsdóttir, Halldór Bjarnason, Birna Jakobsdóttir, Vigdís Kristjánsdóttir, Sigurður Friðgeir Friðriksson, Karitas Þórný Hreinsdóttir, Hans Pétur Diðriksson, Guðbjartur A. Björgvinsson, Erna Einarsdóttir, Sigurbjörn Jóhann Garðarsson, Katrín Ragnheiður Björnsdóttir, Annabella Albertsdóttir, Sigurgeir O. Erlendsson og Sigríður Ingibjörg Karlsdóttir (Björn Jóhannesson lögmaður)
gegn
Húsum & lóðum ehf., Snorra Hjaltasyni (Halldór Brynjar Halldórsson lögmaður), TM tryggingum hf. og Stefáni Magnúsi Ólafssyni (Hildur Ýr Viðarsdóttir lögmaður )

Lykilorð

  • Kæruleyfi
  • Dómsátt
  • Málskostnaður
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 8. júlí 2025 leita Borgarbraut 57-59, húsfélag, Þórunn Elíasdóttir, Ágúst M. Haraldsson, María Guðmundsdóttir, Lilja Jóhannsdóttir, Guðmundur Þorgilsson, Jóhannes Magnús Þórðarson, Guðjón Gíslason, Ingibjörg Haraldsdóttir, Steinunn Guðrún Guðjónsdóttir, Páll Lind Egilsson, Ingvi Árnason, Snjólaug Guðmundsdóttir, Guðbrandur Brynjúlfsson, Sigurður Þorsteinsson, Steinunn Pálsdóttir, Guðmundur Eyþórsson, Ingibjörg Vigfúsdóttir, Guðlaug Örlaugsdóttir, Hanna Sigríður Kjartansdóttir, Anders Larsen, Ólöf Brynjúlfsdóttir, Halldór Bjarnason, Birna Jakobsdóttir, Vigdís Kristjánsdóttir, Sigurður Friðgeir Friðriksson, Karitas Þórný Hreinsdóttir, Hans Pétur Diðriksson, Guðbjartur A. Björgvinsson, Erna Einarsdóttir, Sigurbjörn Jóhann Garðarsson, Katrín Ragnheiður Björnsdóttir, Annabella Albertsdóttir, Sigurgeir O. Erlendsson og Sigríður Ingibjörg Karlsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að kæra úrskurð Landsréttar 25. júní sama ár í máli nr. 298/2025: Hús & Lóðir ehf., Snorri Hjaltason, TM tryggingar hf. og Stefán Magnús Ólafsson gegn Borgarbraut 57-59, húsfélagi, Þórunni Elíasdóttur, Ágústi M. Haraldssyni, Maríu Guðmundsdóttur, Lilju Jóhannsdóttur, Guðmundi Þorgilssyni, Jóhannesi Magnúsi Þórðarsyni, Guðjóni Gíslasyni, Ingibjörgu Haraldsdóttur, Steinunni Guðrúnu Guðjónsdóttur, Páli Lind Egilssyni, Ingva Árnasyni, Snjólaugu Guðmundsdóttur, Guðbrandi Brynjúlfssyni, Sigurði Þorsteinssyni, Steinunni Pálsdóttur, Guðmundi Eyþórssyni, Ingibjörgu Vigfúsdóttur, Guðlaugu Örlaugsdóttur, Hönnu Sigríði Kjartansdóttur, Anders Larsen, Ólöfu Brynjúlfsdóttur, Halldóri Bjarnasyni, Birnu Jakobsdóttur, Vigdísi Kristjánsdóttur, Sigurði Friðgeiri Friðrikssyni, Karitas Þórnýju Hreinsdóttur, Hans Pétri Diðrikssyni, Guðbjarti A. Björgvinssyni, Ernu Einarsdóttur, Sigurbirni Jóhanni Garðarssyni, Katrínu Ragnheiði Björnsdóttur, Önnubellu Albertsdóttur, Sigurgeiri O. Erlendssyni og Sigríði Ingibjörgu Karlsdóttur. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðendur höfðuðu mál á hendur gagnaðilum til heimtu bóta vegna ætlaðra galla á fjöleignarhúsi og var gerð dómsátt í málinu í héraði um annað en málskostnað. Að sáttinni stóðu einnig réttargæslustefndu í málinu. Aðilar deila um ákvörðun málskostnaðar í framhaldi af gerð dómsáttarinnar.

4. Með úrskurði héraðsdóms var gagnaðilum gert að greiða varnaraðilum óskipt 37.500.000 krónur í málskostnað en með úrskurði Landsréttar var sú fjárhæð ákveðin 4.200.000 krónur. Í úrskurði Landsréttar kom fram að réttargæslustefndu í héraði hefðu undirgengist langstærstan hluta þeirra skyldna sem kveðið væri á um í dómsáttinni. Af 2. mgr. 21. gr. laga nr. 91/1991 leiddi hins vegar að ekki væri unnt að gera þeim að greiða leyfisbeiðendum málskostnað. Af því leiddi jafnframt að úrlausn um málskostnað gæti ekki endurspeglað dómsátt aðila og væru því ekki efni til að ákveða málskostnað með hliðsjón af 1. mgr. 130. gr. laganna. Í ljósi krafna leyfisbeiðanda, atvika málsins og lykta þess með dómsáttinni þótti rétt með hliðsjón af 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 að gagnaðilar greiddu leyfisbeiðendum óskipt hluta málskostnaðar þeirra. Landsréttur tók fram að tekið væri tillit til þess að lagaskilyrði stæðu ekki til þess að líta til annars útlagðs kostnaðar en þess sem lyti að matsgerð dómkvaddra manna og þingfestingu málsins. Þá var ekki fallist á með héraðsdómi að leyfisbeiðendur gætu krafist greiðslu úr hendi gagnaðila vegna þess kostnaðar sem þeir hefðu haft af málarekstri fyrir kærunefnd húsamála.

5. Leyfisbeiðendur byggja á því úrslit málsins hafi fordæmisgildi, varði mikilsverða almannahagsmuni auk þess sem úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur. Einkum er á því byggt að úrslit málsins hafi verulegt fordæmisgildi um ákvörðun málskostnaðar samkvæmt 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Annars vegar um heimildir dómstóla til að láta þann sem vinnur mál bera málskostnað sinn að meginstefnu sjálfur á grundvelli 3. mgr. 130. gr. laganna og hins vegar um afmörkun þess hvað teljist til málskostnaðar við rekstur dómsmáls í skilningi 129. gr. þeirra. Niðurstaðan hafi jafnframt fordæmisgildi um að hverjum kaupandi nýrrar fasteignar skuli beina kröfum sínum þegar byggingarefni reynist gallað og hvaða kröfur séu gerðar til sönnunar á saknæmri háttsemi seljanda, eiganda mannvirkis og byggingarstjóra. Loks byggja leyfisbeiðendur á því að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur.

6. Að virtum gögnum málsins verður ekki talið að úrlausn um kæruefnið varði mikilsverða almannahagsmuni, geti haft fordæmisgildi eða grundvallarþýðingu fyrir meðferð málsins þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 3. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar sömu málsgreinar á grundvelli þess að úrskurður Landsréttar sé bersýnilega rangur að formi eða efni. Beiðni um kæruleyfi er því hafnað.