Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-113

G.V. Gröfur ehf. (Stefán Geir Þórisson lögmaður)
gegn
Akureyrarbæ (Árni Pálsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Verksamningur
  • Túlkun samnings
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.

2. Með beiðni 3. nóvember 2023 leita G.V. Gröfur ehf. leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála til að áfrýja dómi Landsréttar 6. október sama ár í máli nr. 234/2022: G.V. Gröfur ehf. gegn Akureyrarbæ. Gagnaðili leggst gegn beiðninni.

3. Ágreiningur aðila lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um greiðslu bóta úr hendi gagnaðila að fjárhæð 13.562.663 króna ásamt nánar tilgreindum vöxtum. Aðilar gerðu með sér verksamning í janúar 2018 um gatnagerð og lagningu fráveitu-, neysluvatns-, raf- og samskiptalagna í Naustahverfi VII á Akureyri. Leyfisbeiðandi reisir kröfu sína á því að gagnaðili hafi óskað eftir því að nánar tiltekin gata í fyrrgreindu hverfi yrði opin fyrir umferð frá maí 2018 fram í miðjan ágúst sama ár. Í því hafi hafi falist breyting á verki í skilningi ÍST 30:2012 sem sé á ábyrgð gagnaðila.

4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Þar kom fram að til samningsgagna teldist meðal annars verkáætlun sem hefði verið fylgiskjal með verksamningi aðila. Þá lægi fyrir að leyfisbeiðandi hefði annast gerð hennar og lagt hana fram við verksamningsgerðina. Þótt ekki væri berum orðum kveðið á um lokanir einstakra gatna í verkáætlun kæmi þar fram að eftir lok tiltekinna verkþátta í janúar 2018 ætti ekki að hefja vinnu við götuna að nýju fyrr en um miðjan ágúst sama ár. Hefði gagnaðili því mátt ganga út frá því að gatan yrði opin fyrir umferð fram til þess tíma. Óljós atriði um þetta í verkáætluninni yrði því að skýra leyfisbeiðanda í óhag.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að með dómi Landsréttar sé verkáætlun leyfisbeiðanda ranglega gefið vægi meðal útboðs- og samningsgagna sem ekki fái staðist almennar reglur útboðs- og verktakaréttar eða reglur um túlkun og fyllingu samninga. Leyfisbeiðandi telur að dómurinn hafi í för með sér réttaróvissu. Það hafi jafnframt verulega og almenna þýðingu fyrir útboðs- og verktakarétt og opinber innkaup að skorið sé úr um að hvaða marki sé heimilt að víkja frá skilmálum útboðs- og verklýsingar með framlagningu verkáætlunar eftir að tilboði hefur verið tekið. Að lokum telur leyfisbeiðandi dóm Landsréttar bersýnilega rangan af nánar tilgreindum ástæðum.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómurinn sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.